Fara í efni
Þór

Stelpurnar eru Íslandsmeistarar!

Íslandsmeistarar KA/Þórs eftir leikinn við Val í dag. Ljósmynd: Egill Bjarni Friðjónsson.

KA/Þór sigraði Val, 25:23, í seinni úrslitaleik Íslandsmóts kvenna í handbolta í dag í Valsheimilinu. Akureyrarstelpurnar eru því Íslandsmeistarar 2021. Stórkostlegur endir það á mögnuðum vetri. Innilega til hamingju!

Fyrri hálfleikurinn var mjög jafn, jafnt var nánast á öllum tölum lengi vel og liðin skiptust á að hafa eins marks forystu. Munurinn var fyrst tvö mörk eftir 19 mínútur, 9:7, fyrir KA/Þór þegar Martha Hermannsdóttir skoraði úr víti, og staðan var 12:10 fyrir Stelpurnar okkar í hálfleik.

Valsstelpurnar voru svo í eltingaleik allan seinni hálfleikinn; náðu nokkrum sinnum að minnka muninn niður í eitt mark en jöfnuðu aldrei. Leikmenn KA/Þórs léku gríðarlega vel, vörnin var öflug og stelpurnar sýndu oft ótrúlega skynsemi í sókninni. Eins og iðulega í vetur léku þær tiltölulega langar sóknir og höndin var oft komin upp hjá dómurunum, til merkis um að styttist í leiktöf, þegar þær náðu að opna vörn Vals og skora. Aldrei nein taugaveiklun eða fljótfærni. Liðsheildin er frábær og það skilaði þessum glæsilega, mjög svo verðskuldaða árangri.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina úr leiknum.