Fara í efni
Þór

Stærsta áskorunin að öflugt háskólastarf haldi áfram úti á landi

Áslaug Ásgeirsdóttir er nýr rektor HA og á hennar fyrstu vikum í starfi hefur verið í mörg horn að líta. Mynd:SNÆ

Nýtt hermisetur, sameiningarviðræður við Bifröst og auknir möguleikar á doktorsnámi. Þetta er brot af þeim málum sem liggja á borði nýs rekstors Háskólans á Akureyri.

„Það sem mér finnst spennandi við þennan háskóla er hvað hann er ungur, rétt um 37 ára gamall. Hann var náttúrlega stofnaður til þess að auka aðgengi að menntun úti á landsbyggðinni, sérstaklega í hjúkrunar- og kennarafræðum. Sem slíkur hefur hann staðið sig rosalega vel í því að mennta fólk í heimabyggð til þess að sinna þessum störfum. Það var alveg full þörf á því og er enn,“ segir Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor HA, þegar blaðamaður Akureyri.net heimsótti hana á dögunum til að forvitnast um tækifæri og áskoranir í starfi skólans og hennar skoðanir á háskólasamfélaginu.

„Sérstaða Háskólans á Akureyri hefur legið í því að mikið af náminu er hægt að taka í lotum og fjarnámi, sem hentar vel fólki sem ekki býr á Akureyri eða sem er í vinnu með námi. Þetta hefur mér fundist heillandi en mér finnst liggja tækifæri í því að skilgreina sérstöðu HA betur og vekja athygli á því að skólinn er lifandi stofnun. Á haustin eru hér lotur nánast í hverri viku og bærinn fyllist af háskólanemum. Þá flytur fólk gagngert til Akureyrar til þess að koma hingað í nám eða kenna hérna.“

Áslaug við Íslandsklukkuna. Myndin er tekin á skólasetningu HA í haust en þá er hefð fyrir því að klukkunni sé hringt. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Doktorsnám á fleiri fræðasviðum

Nýjum stjórnendum fylgja alltaf ákveðnar breytingar. Aðspurð hvort Áslaug vilji breyta einhverju við námsframboð HA segir hún að í fljótu bragði finnist henni frekar vera þörf á því að virkja betur það námsframboð sem fyrir er. „Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á það að líftæknin sé svolítið framtíð Íslands. Við erum nú þegar með líftækninám við skólann og mér finnst við getum byggt það nám upp enn frekar. Síðan eru eflaust einhverjar aðrar hugmyndir, bæði innan og utanhúss, varðandi það hvað annað mætti koma hingað, sumt af því er raunhæft, annað ekki,“ segir Áslaug og heldur áfram. „Við erum að gera marga góða hluti en auðvitað er alltaf hægt að bæta sig á ákveðnum stöðum. Við erum opinber háskóli og ef við ætlum að bæta við fræðasviðum þá þarf samþykki fyrir því. Það er komið nýtt reiknilíkan frá stjórnvöldum varðandi það hvernig borgað er fyrir háskólanám og eitt af stóru verkefnunum í ár er að finna út hvernig við getum styrkt okkur í þeim þáttum sem við fáum pening fyrir. Eitt af því eru meiri rannsóknir, að vera með fleiri meistaranema og auka doktorsnám. Það er þangað sem við þurfum að teygja okkur. Við höfum útskrifað nokkra doktorsnema, það voru hér t.d. tvær frábærar doktorsvarnir í sumar. Við höfum óskað eftir því að geta verið með doktorsnám á fleiri fræðasviðum og erum vongóð um að það verði samþykkt. Það er ekki nóg að vera með breitt námsframboð heldur þarf líka að dýpka og lengja námið, þar sem það er hægt, og tryggja þannig að námið vaxi.“   

Við höfum óskað eftir því að geta verið með doktorsnám á fleiri fræðasviðum og erum vongóð um að það verði samþykkt. Það er ekki nóg að vera með breitt námsframboð heldur þarf líka að dýpka og lengja námið, þar sem það er hægt, og tryggja þannig að námið vaxi.“  

Aðspurð hvort hún eigi sér eitthvað uppáhalds fag, en hún fór sjálf og menntaði sig í blaðamennsku í Bandaríkjunum eftir stúdentinn, áður en hún tók svo doktorsgráðu í stjórnmálafræði frá Washington University in St. Louis í Bandaríkjunum, segir hún að svo sé ekki. „Mér finnst háskólar sem samfélög mjög áhugaverð og mér finnst að þau verði bjóða upp á ákveðna fjölbreytni. Ég á mér ekkert uppáhaldsfag þannig séð, en þar sem ég er félagsvísinda manneskja þá skil ég þá starfsemi mjög vel. En ég hef líka unnið mikið með vísindamönnum í mínu fyrra starfi. Þetta á allt rétt á sér en fögin móta fólk svolítið í hugsun. Í háskólum með fjölbreytta starfsemi er alltaf gaman ef maður getur fengið fólk til að hugsa aðeins út fyrir sinn þægindaramma og sjá nýja möguleika.“

„Háskólar allsstaðar í heiminum eru að vinna í því núna að leysa áskoranir varðandi gervigreindina og finna út úr því hvernig hægt er að nýta þessa nýju tækni til kennslu og náms, en á sama tíma að tryggja að nemendur séu samt að læra,“ segir Áslaug.

Tækifæri í sameiningu

Talið berst að Háskólanum á Bifröst en mikið hefur verið rætt um það hvort fýsilegt sé að sameina HB við Háskólann á Akureyri. „Ég kem bara inn í þetta ferli núna og er búin að eiga einn fund með stjórnendum á Bifröst. Það eina sem ég get sagt um þetta mál er að við ætlum að halda samtalinu áfram. Við sjáum tækifæri í því að sameining geti styrkt nám í þeim þrem deildum sem er verið að tala um [lagadeild, viðskiptadeild og félagsvísindadeild]. Stærri deildir, með fleira og fjölbreyttara starfsfólki eykur fjölda námskeiða og þar af leiðandi val nemenda. Einnig hafa stærri deildir frekari tækifæri til rannsóknarstarfs. Eftir að fulltrúar deilda beggja skólanna funduðu í vor á Blönduósi, þá sér fólk möguleikana með sameiningu. Ef skólarnir meta að sameiningin verði farsæl þá er það ávinningur fyrir menntun á Íslandi,“ segir Áslaug, en bætir jafnframt við að staða Háskólans á Bifröst hafi breyst mjög mikið eftir að skólinn hætti að taka skólagjöld. Segist hún ekki vita hvernig það spilast inn í sameiningar viðræðurnar.

Íslensk háskólayfirvöld vilja að við fjölgum hjúkrunarnemum en til þess þurfum við nýtt hermisetur. Það er forgangsatriði hjá okkur og ráðuneytinu. Hins vegar höfum við lagt áherslu á það við háskólayfirvöld að ef við finnum lausn á þessu, sem ég vona að við gerum, þá þarf það að vera varanleg lausn. Bráðabirgðarlausnir hafa tilhneigingu til þess að endast allt of lengi og mér finnst mikilvægt að við gerum þetta vel.

Háskólinn í húsnæðisvandræðum

Þó Háskólinn á Akureyri hafi sannarlega tækifæri til frekari uppbyggingar þá stoppar vöxtur að einhverju leyti á húsnæðismálum, a.m.k núna. „Við erum með ákveðin húsnæðisvandræði, okkur vantar til dæmis auka skrifstofuhúsnæði. Þrátt fyrir að mikið af okkar námi sé fjarnám þá er hér líka fullt af námi sem byggir á viðveru í skólanum. Við erum t.d. ekki að kenna rannsóknir og vísindi án þess að vera með fólk í rannsóknarstofum. Sama með hjúkrun og kennslu. Fólk þarf að vera hérna til þess að læra þessi fög. Íslensk háskólayfirvöld vilja að við fjölgum hjúkrunarnemum en til þess þurfum við nýtt hermisetur. Það er forgangsatriði hjá okkur og ráðuneytinu. Hins vegar höfum við lagt áherslu á það við háskólayfirvöld að ef við finnum lausn á þessu, sem ég vona að við gerum, þá þarf það að vera varanleg lausn. Bráðabirgðarlausnir hafa tilhneigingu til þess að endast allt of lengi og mér finnst mikilvægt að við gerum þetta vel. Ég vil að við byggjum upp flott hermisetur þar sem fólk getur fengið fyrsta flokks menntun og við getum stuðlað að því að það komi fleiri hjúkrunarfræðingar út á vinnumarkaðinn og fólk í heilbrigðisstéttum geti menntað sig frekar hér.“

Háskólinn á Akureyri. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Gervigreind og fjármagn

Aðrar aðkallandi áskoranir hjá Háskólanum á Akureyri snúast t.d. um gervigreindina en það er áskorun sem háskólar víða um heim eru að glíma við. „Netið og tæknin eru að gefa okkur svo marga möguleika í framtíðinni og það er mjög áhugavert að skoða hvernig við getum nýtt þessa möguleika betur. Háskólar allsstaðar í heiminum eru að vinna í því núna að leysa áskoranir varðandi gervigreindina og finna út úr því hvernig hægt er að nýta þessa nýju tækni til kennslu og náms, en á sama tíma að tryggja að nemendur séu samt að læra,“ segir Áslaug.

Eins og sést á framantöldu er að ýmsu að huga innan háskólans en Áslaug nefnir að lokum enn eina áskorunina sem felst í því að tryggja það að skólinn fái nóg fjármagn til þess að hægt sé að reka hann. „Háskólanámi á Íslandi er sniðinn mjög þröngur stakkur. Við erum eftirbátar nágrannalandanna í fjármögnun á háskólanámi. Við erum t.d með færri háskólamenntað fólk að meðaltali hér en í nágrannalöndunum, sérstaklega á landsbyggðinni. Stærsta áskorunin er því sú að tryggja að öflug háskólastarfsemi haldi áfram úti á landi. Það er mikilvægt að íslenskir nemendur hafi kost á því að fara út á land til þess að læra. Þessi skóli, og aðrir skólar á landsbyggðinni, hafa sannað að það er aðsókn í þá, og við verðum að passa upp á að þessi möguleiki verði áfram til staðar, vaxi og dafni.“