Fara í efni
Þór

Sörensen bestur hjá Þór, Aron Ingi efnilegastur

Sveinn Leó Bogason, aðstoðarþjálfari meistaraflokks Þórs, Aron Ingi Magnússon (á myndinni til vinstri) og Marc Rochester Sörensen. Mynd af vef Þórs.

Danski miðjumaðurinn Marc Rochester Sörensen var kjörinn besti leikmaður Þórsliðsins í knattspyrnu í sumar og Aron Ingi Magnússon þótti sá efnilegasti. Þetta var tilkynnt á lokahófi knattspyrnudeildar sem haldið var á laugardagskvöldið, eftir að Þór vann Grindavík 3:0 á heimavelli í síðustu umferð deildarinnar.

Þá var Bjarni Guðjón Brynjólfsson kvaddur sérstaklega með viðurkenningu, en hann kveður nú Þór og gengur til liðs við Val eins og áður hefur komið fram.

Á heimasíðu Þórs segir um þremenningana:

Marc Rochester Sörensen (1992) spilaði alls 24 leiki með Þórsliðinu á árinu og skoraði í þeim leikjum fimm mörk, 17/2 í Lengjudeildinni, 3/2 í Mjólkurbikarkeppninni og 4/1 í Lengjubikarnum. Þetta var fyrsta tímabil hans með Þór.

Aron Ingi Magnússon (2004) spilaði 26 leiki með Þórsliðinu á árinu og skoraði í þeim leikjum sjö mörk, 20/5 í Lengjudeildinni, 5/2 í Mjólkurbikarkeppninni og 1/0 í Lengjubikarnum. Þá tók hann einnig þátt í nokkrum leikjum með 2. flokki. Aron Ingi á samtals að baki 51 meistaraflokksleik með Þór, þann fyrsta á árinu 2021.

Bjarni Guðjón Brynjólfsson (2004) spilaði 31 leik með Þórsliðinu á árinu og skoraði í þeim leikjum sex mörk, 22/5 í Lengjudeildinni, 5/0 í Mjólkurbikarkeppninni og 4/1 í Lengjubikar. Hann á samtals að baki 79 meistaraflokksleiki með Þór, þann fyrsta á árinu 2020.

Sveinn Leó Bogason, aðstoðarþjálfari Þórs, Bjarni Guðjón Brynjólfsson sem kveður Þór og er á leið til Vals og Sveinn Elías Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Þórs.