Fara í efni
Þór

Sögulegur dagur hjá Iðunni og Ísfold

Iðunn Rán Gunnarsdóttir, til vinstri, og Ísfold Marý Sigtryggsdóttir ásamt reynsluboltanum, Örnu Sif Ásgrímsdóttur, fyrirliða Þórs/KA, í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA og Keflavík gerðu markalaust jafntefli í dag í lokaumferð Pepsi Max deildarinnar í knattspyrnu, efstu deildar Íslandsmóts kvenna. Þar með er ljóst að Keflvíkingar halda sæti sínu í deildinni, en lið Tindastóls frá Sauðárkróki, er fallið niður í Lengjudeildina eftir tap á heimavelli, 2:1,  fyrir Stjörnunni.

Lið Þórs/KA endaði í 6. sæti deildarinnar að þessu sinni. Dagurinn var sögulegur fyrir tvær ungar og mjög efnilegar stelpur í Þór/KA því þær voru í fyrsta skipti í byrjunarliðinu í efstu deild. Iðunn Rán Gunnarsdóttir lék sem miðvörður, við hlið fyrirliðans þrautreyndar, Örnu Sifjar Ásgrímsdóttur og Ísfold Marý Sigtryggsdóttir lék á miðjunni.

Iðunn er fædd 2005 og er nýorðin 16 ára en Ísfold Marý fædd 2004, nýorðin 17 ára.

Iðunn hafði komið við sögu í einum leik, kom af varamannabekknum gegn Þrótti í Reykjavík 23. ágúst en Ísfold Marý hafði komið 10 sinnum inná sem varamaður í deildinni í sumar.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

Smellið hér til að sjá lokastöðuna í deildinni.