Þór
Snjóflóð á heiðinni og Þórsarar snéru heim
24.01.2021 kl. 10:11
Handboltalið Þórs á ferð í morgun. Mynd af Facebook síðu Þórsara
Ekkert verður af leik Vals og Þórs í Olís deildinni í handbolta í dag. Þórsurum var snúið við í Bakkaselsbrekku, á leið upp á Öxnadalsheiði og eru þeir nýkomnir til síns heima á ný.
„Vegagerðin ætlaði að fylgja okkur yfir heiðina, við áttum að vera með fyrstu bílum í gegn en svo tóku þeir eftir nýju snjóflóði þannig að okkur var bara sagt að snúa við og koma nokkur niður,“ sagði Þorvaldur Sigurðsson, annar þjálfara Þórs, við Akureyri.net rétt í þessu.
„Þetta er nú einmitt eitt þeirra atriða sem ég nefndi um daginn, sem ástæðu fyrir því að best væri að breyta skipuagi mótsins – að spila ekki nánast heilt Íslandsmót eftir áramót. Veturinn ætti eftir að minna hressilega á sig; við upplifðum það strax núna fyrir fyrsta leik.“
- Kvennalið KA í blaki á að mæta Þrótturum í Reykjavík í dag og Þórsarar eiga að taka á móti KR-ingum í Domino's deildinni í körfubolta í kvöld. Enn er ekki ljóst hvort af þeim leikjum verður. Þá er fyrirhugaður leikur Fjölnis og SA Víkinga á Íslandsmóti karla í íshokkí í kvöld í Reykjavík, leik sem frestað var í gær vegna ófærðar.