Fara í efni
Þór

Skemmtileg tenging Jóhanns við feðgana

Birgir Ómar Hlynsson, Jóhann Helgi Hannesson og Hlynur Birgisson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Jóhann Helgi Hannesson varð á dögunum markahæsti knattspyrnumaðurinn í sögu Þórs. Framherjinn náði þeim áfanga þegar hann gerði seinna mark liðsins í 2:2 jafntefli við Grindavík suður með sjó 16. júlí. Það var 74. mark Jóhanns Helga fyrir Þór í deilda- og bikarkeppni. Ármann Pétur Ævarsson, sem lengi lék með Jóhanni Helga í Þórsliðinu, gerði 73 mörk á árunum 2002 til 2019.

Jóhann Helgi og félagar verða á ferðinni í kvöld þegar þeir mæta liði Aftureldingar í Mosfellsbænum í 15. umferð Lengjudeildarinnar, næst efstu deildar Íslandsmótsins. Leikurinn hefst klukkan 18.00. Þórsarar eru í áttunda sæti með 19 stig eftir 14 leiki, Afturelding er sæti neðar með 16 stig að loknum 13 leikjum.

  • Fyrir þetta keppnistímabil höfðu Ármann Pétur og Jóhann Helgi báðir gert 63 mörk fyrir Þór í deildaleikjum. Ármann Pétur átta í efstu deild og 55 í næst efstu, Jóhann Helgi 14 í efstu deild og 49 í þeirri næst efstu.
  • Jóhann Helgi varð markahæsti Þórsarinn í deildakeppni þegar hann skoraði gegn ÍBV í Eyjum 14. júní – það var 64. markið hans.
  • Jóhann Helgi hefur nú gert 67 mörk deildaleikjum; síðan hann gerði markið í Eyjum hefur hann skorað gegn Þrótti, Grindavík og Gróttu.
  • Vert er að geta þess að Bjarni Sveinbjörnsson hefur skorað lang mest allra Þórsara í efstu deild Íslandsmótsins. Hann gerði 42 mörk í efstu deild fyrir Þór og átta að auki þegar hann lék með ÍBV í efstu deild.
  • Jóhann Helgi hefur gert níu mörk í 21 bikarleik; átta mörk fyrir Þór og eitt fyrir Grindavík, sem hann lék með hluta sumars 2018. Hann skoraði ekki fyrir Grindavík í deildarleik. 

Ýmsar skemmtilegar tengingar

  • Fyrsta mark Jóhanns Helga fyrir meistaraflokk Þórs var í 1:1 jafntefli gegn Haukum á Akureyrarvelli 12. september 2008 í B-deild Íslandsmótsins. „Ég fékk sendingu frá Ibra Jagne; hann var á vinstri kantinum og sendi yfir til hægri, ég var sennilega rétt við vítateigslínuna og sendi boltann í fyrstu snertingu, utanfótar með hægri fæti í fjærhornið,“ sagði Jóhann Helgi við Akureyri.net á dögunum, þegar hann rifjaði markið upp. 
  • Svo skemmtilega vill til að þetta var 252. og síðasti leikur Hlyns Birgissonar fyrir Þór. Viðureignin við Hauka var áttundi leikur Jóhanns Helga fyrir Þór á Íslandsmóti, sá þriðji þetta sumar en hann kom við sögu í fimm leikjum árið áður.
  • Þegar Jóhann Helgi varð markahæsti Þórsarinn frá upphafi – í Grindavík 16. júlí í sumar – gerði Birgir Ómar Hlynsson fyrsta mark sitt fyrir Þór. Hann er sonur Hlyns Birgissonar og Ingu Huldar Pálsdóttur og því bróðir Lillýar Rutar sem lengi lék með Þór/KA en er nú í herbúðum Vals.
  • Jóhann Helgi kom fyrst við sögu á Íslandsmóti með Þór 2. júlí 2007, þegar liðið gerði 2:2 jafntefli við Leikni. Hann kom inná í hálfleik fyrir Jóhann Traustason. Hlynur Birgisson var í byrjunarliði Þórs þann dag.
  • Annar leikur Jóhanns Helga var í 1:0 tapi gegn KA á Akureyrarvelli 16. júlí 2007. Hann kom inn á sem varamaður undir lokin – fyrir Hlyn Birgisson!  
  • Fyrsti leikur Jóhanns Helga í byrjunarliði Þórs var í 1:0 tapi gegn KA 27. júní 2008 á Akureyrarvelli. Jóhann Helgi fór af velli á 59. mínútu fyrir Atla Sigurjónsson, sem nú leikur með KR. Sveinn Elías Jónsson, sem nú er í þjálfarateymi Þórs, lék lengi liðinu og síðustu árin sem fyrirliði, kom inn á sem varamaður í leiknum – hjá KA. Einn leikmanna Þórsliðsins þann dag var Gísli Páll Helgason, bróðursonur Ingu Huldar, eiginkonu Hlyns.
  • Fyrsti deildarleikur Hlyns Birgissonar með meistaraflokki Þórs var 1. júní 1985. Liðið tapaði 2:1 fyrir Fram á Laugardalsvelli og Hlynur kom inn á fyrir Sigurð Pálsson á 56. mínútu. Sigurður er bróðir Ingu Huldar, eiginkonu Hlyns.
  • Siguróli Kristjánsson var í Þórsliðinu gegn Fram, þegar Hlynur kom inn á í fyrsta skipti. Sonur hans, Kristján, lék með Þór í leiknum gegn Haukum í september 2008, þegar Jóhann Helgi gerði fyrsta mark sitt og Hlynur lék í síðasta skipti fyrir Þór!
  • Hlynur Birgisson skoraði fyrir Þór í fyrsta skipti í 2:1 sigri á Val í efstu deild Íslandsmótsins, á malarvelli Þórs, 21. maí 1986. Sigurður Pálsson kom inn á sem varamaður í leiknum.
  • „Lítið var um marktækifæri í fyrri hálfleik, en það var svo á 40. mín að Hlynur Birgisson skoraði seinna mark Þórs – stórglæsilegt mark, og fyrsta mark Hlyns í deildinni. Eftir aukaspyrnu Jónasar Róbertssonar hreinsaði varnarmaður frá marki – beint til Hlyns sem var 20 metra frá marki og hann þrumaði þegar í stað í netið,“ sagði í umfjöllun Morgunblaðsins um leikinn.
  • Sveinn Elías, sem áður er nefndur, er kvæntur Pálu Dröfn, dóttur Sigurðar Pálssonar og Þórunnar Sigurðardóttur. Hin dóttir þeirra, Inga Dís, er gift Kristjáni Páli, bróður Jóhanns Helga!   

Jóhann Helgi, fyrir miðju, fagnar fyrsta marki sínu fyrir Þór, gegn Haukum 12. september 2008. Með honum eru Kristján Sigurólason, númer 4, og Sigurður Marinó Kristjánsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Jóhann Helgi og Hlynur Birgisson slá á létta strengi eftir leikinn 12. september 2008 - síðasta leik Hlyns, þegar Jóhann Helgi gerði fyrsta markið fyrir Þór. Til vinstri er Sigurður Marinó Kristjánsson, fyrirliði Þórsliðsins í sumar og við Hlyns er Atli Sigurjónsson, sem nú leikur með KR. Á myndinni eru líka Lillý Rut og Birgir Ómar, börn Hlyns.

Hlynur Birgisson og fjölskylda 12. september 2008, eftir síðasta leik hans með Þór. Frá vinstri: Lillý Rut, sem leikur með Val, Hlynur, Inga Huld Pálsdóttir og Laufey Elísa, og fyrir framan er Birgir Ómar, sem nú leikur með Þór og skoraði í fyrsta skipti fyrir meistaraflokk á dögunum, í sama leik og Jóhann Helgi varð markahæsti leikmaður félagsins.

Jóhann Helgi skýtur að marki gegn Haukum í september 2008. Hann gerði fyrsta mark sitt fyrir Þór í þeim leik. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Jóhann Helgi Hannesson fagnar marki sínu gegn Þrótti á dögunum og þakkar Kristófer Kristjánssyni, lengst til hægri, fyrir sendinguna. Kristófer hélt upp á 17 ára afmælið nokkrum dögum áður og kom þarna í fyrsta skipti við sögu í „alvöru“ leik með meistaraflokki. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.