Fara í efni
Þór

Skautahlauparar – 50. gamla íþróttamyndin

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – L

Akureyri.net hóf að birta gamla íþróttamynd vikulega í nóvember á síðasta ári og í dag birtist sú fimmtugasta. Á fyrstu myndinni, sem sjá má hér að neðan, púttar Jóhann Þorkelsson héraðslæknir á gamla golfvellinum við Þórunnarstræti á Akureyri, og mynd dagsins er tekin við verðlaunaafhendingu eftir keppni í skautahlaupi. Akureyringar voru bestir hérlendis í þeirri grein um langt árabil.

Viðbrögð lesenda við gömlu íþróttamyndunum hafa verið mikil. Tilgangurinn með birtingu þeirra var annars vegar að gleðja fólk, sem sannarlega hefur tekist, hins vegar að safna saman upplýsingum – til dæmis nöfnum fólks á myndum og sögum tengdum þeim – sem gengið hefur vonum framar.

Lesendur eru hér með hvattir til þess að halda áfram að senda upplýsingar um myndirnar, nöfn fólks, skemmtilegar sögur, hvers kyns ábendingar eða vangaveltur, til þess sem þetta ritar, á netfangið skapti@akureyri.net – það væri ómetanlegt aðstoð í þeirri viðleitni að safna saman sem mestum fróðleik um íþróttalífið í bænum á árum áður.

Nöfn allra skautahlauparanna á myndinni nema eins liggja fyrir.

Í aftari röð eru, frá vinstri: Hjalti Þorsteinsson, óþekktur, Jón R. Einarsson, Þorvaldur Snæbjörnsson, Sigurjón Sigurðsson og Ólafur Jóhannsson. Í fremri röð eru, frá vinstri: Þorsteinn Steingrímsson, Edda Indriðadóttir, Kristján Árnason og Björn Baldursson.

Akureyringurinn Björn Baldursson var lengi sá besti og og á enn Íslandsmet í öllum vegalengdum; 500 metrum, 1500 m, 3000 m og 5000 m. Fljótasta kona Íslandssögunnar í skautahlaupi er líka Akureyringur, Edda Indriðadóttir, sem státar af sama árangri og Björn; hún á öll Íslandsmet í greininni; í 500 m, 1000 m, 1500 m og 3000 m hlaupi. Þess ber auðvitað að geta að langt er síðan keppni í skautahlaupi lagðist af hér á landi.

Fyrsta gamla íþróttamyndin sem Akureyri.net birti, laugardaginn 18. nóvember á síðasta ári. Jóhann Þorkelsson héraðslæknir að pútta, í fjarska eru Hafliði Guðmundsson starfsmaður hjá S.Í.S. og Stefán Árnason hjá Almennum tryggingum og lengst til hægri ónefndur útlendingur.