Fara í efni
Þór

Sigurleikur sem fer í sögubækurnar

Hraustlega tekið á Arnóri Þorra Þorsteinssyni í vetur. Hann gerði 12 mörk í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar unnu ungmennalið Vals, 32:29, í næst efstu deild Íslandsmótsins í handbolta í Höllinni á Akureyri í dag. Staðan í hálfleik var 16:14.

Þjálfari Þórs, Norður-Makedóninn Stevce Alusovski, fékk rautt spjald á leið til búningsklefa eftir fyrri hálfleikinn; varð samferða dómurunum og þeir hrifust augljóslega ekki af þeim skilaboðum sem þjálfarinn kaus að koma á framfæri.

Valsmenn komust einu marki yfir snemma í seinni hálfleik en sú forysta varði ekki lengi, Þórsarar spýttu í lófana, komust mest sex mörkum yfir og sigurinn var býsna öruggur. 

Nokkrum mínútum fyrir leikslok var Þórsaranum Tomislav Jagurinovski vikið af velli í þriðja skipti og þar með útilokaður. Á Facebook síðu handboltaliðs Þórs segir: „Þá gerist það aftur í leiknum að áhorfendur horfðu hver á annan, klafs í teignum sem endar á því að Tomi fær sína þriðju brottvísun og sendur uppí stúku. Þetta fer amk í sögubækurnar!! Aldrei áður hafa tveir Makedonar setið uppí stúku og horft á handboltaleik hjá Þór svo vitað sé.“

Mörk Þórs: Arnór Þorri Þorsteinsson 12 (6 víti), Jóhann Einarsson 5, Tomislav Jagurinovski 3, Viktor Jörvar Kristjánsson 3, Viðar Ernir Reimarsson 3, Arnþór Gylfi Finnsson 2, Halldór Yngvi Jónsson 2, Aðalsteinn Ernir Bergþórsson 1 og Kristján Gunnþórsson 1. Arnar Þór Fylkisson varði 12 skot.

Eftir leikinn í dag eru Þórsarar í fjórða sæti með 12 stig eftir níu leiki. Hafa unnið sex en tapað þremur. Einn leikur er eftir fyrir jól, topplið Harðar frá Ísafirði sækir Þór heim næsta laugardag, 18. desember, klukkan 14.00.

Hörður tapaði í dag fyrir Fjölni í Reykjavík, 34:33. Hörður og ÍR eru bæði með 16 stig og Fjölnir 12, öll eftir níu leiki. Þórsarar og ungmennalið Selfoss eru bæði með 10 stig eftir átta leiki.