Fara í efni
Þór

Sannfærandi sigur Þórs á Gróttu

Valdimar Daði Sævarsson, til hægri, fagnar öðru marki sínu og þriðja marki Þórs í kvöld. Kristján Atli Marteinsson er að vonum ekki síður glaður. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór vann langþráðan 3:1 sigur á Gróttu á VÍS-vellinum (Þórsvellinum) nú í kvöld í Lengjudeildinni, næstu efstu deild Íslandsmótsins.

Leikurinn var hluti 10. umferðar deildarinnar, en honum var frestað vegna þátttöku U19 ára landsliðsins í lokamóti Evrópukeppninnar fyrr í þessum mánuði. Bjarni Guðjón Brynjólfsson gerði fyrsta markið og Valdimar Daði Sævarsson hin tvö. Þetta var fyrsti sigur Þórsliðsins í deildinni síðan 16. júní.

Leikurinn byrjaði fjörlega, Gróttumenn fengu gott færi strax á annari mínútu en Aron Birkir Stefánsson varði þá frábærlega frá Grími Inga. Bjarni Guðjón Brynjólfsson fékk svo fínt skotfæri stuttu seinna. Eftir það róaðist leikurinn og jafnræði var með liðunum.

Þórsarar gerðu fyrsta mark leiksins á 31. mínútu. Bjarni Guðjón Brynjólfsson gerði það eftir góðan sprett. Hann missti boltann of langt frá sér en hafði heppnina með sér þegar varnarmaður Gróttu skaut boltanum í Bjarna og inn. Staðan orðin 1:0 heimamönnum í vil og þannig var hún þegar Twana Khalid Ahmed, ágætur dómari leiksins flautaði til loka fyrri hálfleiks.

Seinni hálfleikurinn byrjaði vel fyrir heimamenn því á 48. mínútu leiksins bætti Valdimar Daði Sævarsson við öðru marki Þórs eftir langa sendingu frá Elmari Þór Jónssyni. Staðan orðin 2:0 og útlitið bjart á Þórsvelli. Valdimar Daði var svo aftur á ferðinni á 74. mínútu leiksins. Hann skoraði þá annað mark sitt eftir hafa sloppið í gegn um vörn Gróttu. Alexander Már Þorláksson gerði þá virkilega vel í að koma boltanum á Valdimar með hælspyrnu.

Gróttumenn minnkuðu muninn í 3:1 á 84. mínútu leiksins. Aron Bjarki Jósepsson gerði mark þeirra. Eftir það sóttu Gróttumenn meira en Þórsliðið lagðist til baka. Þrátt fyrir það voru fleiri mörk ekki skoruð og lokatölur 3:1 fyrir Þór.

Eftir leikinn er Þórsliðið með 17 stig og er sem stendur í sjötta sæti deildarinnar, einu sæti frá umspils sæti. Deildin er gríðarlega jöfn og því þarf ekki mikið að gerast til að liðið færist um set í töflunni. Næsti leikur liðsins er á laugardaginn kemur gegn Leikni Reykjavík.

Nánari umfjöllun í kvöld