Fara í efni
Þór

Sandra María og Bjarni Guðjón íþróttafólk Þórs

Sandra María Jessen og Bjarni Guðjón Brynjólfsson - íþróttafólk Þórs 2022 - með verðlaunagripina í Hamri í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Knattspyrnufólk var kosið íþróttafólk Þórs árið 2022. Kjörinu var lýst í félagsheimilinu Hamri síðdegis: Bjarni Guðjón Brynjólfsson er íþróttakarl Þórs og Sandra María Jessen íþróttakona Þórs.

Eftirtalin voru heiðruð sem íþróttakarl og íþróttakona hinna ýmsu deilda:

  • Handknattleiksdeild – Aðalsteinn Ernir Bergþórsson
  • Rafíþróttadeild – Andri Þór Bjarnason
  • Körfuknattleiksdeild – Baldur Örn Jóhannesson
  • Knattspyrnudeild – Bjarni Guðjón Brynjólfsson
  • Hnefaleikadeild – Elmar Freyr Aðalheiðarson
  • Keiludeild – Guðmundur Konráðsson
  • Körfuknattleiksdeild – Heiða Hlín Björnsdóttir
  • Píludeild – Óskar Jónasson
  • Knattspyrnudeild, Þór/KA – Sandra María Jessen

Sandra María var tilnefnd af stjórn Þórs/KA fyrir kjörið og Bjarni Guðjón af knattspyrnudeild Þórs.

Um Söndru Maríu var sagt, þegar tilkynnt var að hún hefði verið kjörin íþróttakona Þórs:

„Sandra María hefur lagt gríðarlega vinnu í að koma sér í fyrra form eftir barnsburð. Hún er einn af lykilleikmönnum Þórs/KA og setur sér skýr og háleit markmið. Hún stefnir á að koma til baka í A-landslið Íslands og var nú í haust valin í æfingahóp liðsins. Sandra mætir ávallt einbeitt til leiks og gerir allt sitt af fullum krafti.

Hún spilaði alla leiki Þórs/KA í sumar og var markahæst í liðinu með átta mörk í, aðeins þremur mörkum frá markahæsta leikmanni sumarsins í Bestu deild kvenna.

Sandra María bætti félagsmet Rakelar Hönnudóttur þegar hún skoraði 75. mark sitt í efstu deild í leik í maí og hélt áfram að bæta það út tímabilið og endaði í 81 marki í efstu deild þegar upp var staðið í haust, en hún náði jafnframt þeim áfanga í haust að skora 100. mark sitt fyrir Þór/KA þegar önnur mót á vegum KSÍ og leikir í Evrópukeppni eru talin með.“

Um Bjarna Guðjón sagði, þegar kjöri hans var lýst:

„Knattspyrnudeild Þórs tilnefndi Bjarna Guðjón Brynjólfsson sem knattspyrnukarl ársins úr sínum röðum og tilnefnir hann í kjöri til íþróttakarls Þórs.

Þrátt fyrir ungan aldur er Bjarni orðinn einn af lykilmönnum meistaraflokks Þórs í knattspyrnu. Bjarni kemur úr hinu öfluga yngri flokka starfi Þórs og hefur rækilega stimplað sig inn hjá Þór og yngri landsliðum Íslands.

Bjarni sem er aðeins átján ára spilaði 19 leiki í Lengjudeildinni með Þór á síðasta tímabili og skoraði 6 mörk. Þá lék hann 7 leiki með U19 ára landsliði Íslands og skoraði 1 mark.“

Sandra María og Bjarni Guðjón ásamt Ragnari Sverrissyni, kaupmanni í JMJ, gefanda verðlaunagripanna. Ragnar afhendir þá jafnan.