Þór
Sandra María Jessen heim til Þórs/KA
12.01.2022 kl. 11:40
Með þjálfurum Þórs/KA. Frá vinstri: Perry Mclachlan, Sandra María Jessen og Jón Stefán Jónsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Sandra María Jessen landsliðskona í knattspyrnu, er gengin til liðs við Þór/KA á nýjan leik. Hún hefur leikið með Bayer Leverkusen í Þýskalandi síðustu þrjú keppnistímabil.
Sandra María, sem er nýorðin 27 ára, hóf að leika með meistaraflokki Þórs/KA 16 ára að aldri. Hún varð Íslandsmeistari með liðinu árið 2012 og aftur 2017, þegar hún var fyrirliði. Eftir leiktíðina 2018 hélt hún til Þýskalands.
- Sandra María tók á sínum tíma þátt í 163 leikjum með Þór/KA og gerði 89 mörk. Hún á að baki 31 A-landsleik og hefur gert sex mörk fyrir Ísland.
- Síðasti heimaleikur Söndru Maríu með Þór/KA var 4:1 sigur á Val, 17. september 2018. Svo skemmtilega vill til að fyrsti heimaleikur Þórs/KA á Íslandsmóti þessa árs verður gegn Val, ríkjandi Íslandsmeisturum, 3. maí. Fyrsti leikur Akureyringa í mótinu verður hins vegar gegn Breiðabliki á útivelli 27. apríl.
- Sandra María gerði eitt marki í 4:1 sigrinum á Val haustið 2018. Í liðinu þann dag var aðeins einn leikmaður sem enn er hjá Þór/KA, Hulda Björg Hannesdóttir.
- Síðasti leikur Söndru Maríu með Þór/KA var gegn Stjörnunni á útivelli, í lokaumferð Íslandsmótsins 2018. Þrír leikmenn, sem enn eru með Þór/KA, voru þá í liðinu; Margrét Árnadóttir, Hulda Björg Hannesdóttir og Rut Matthíasdóttir.