Fara í efni
Þór

Sameining eða samstarf Arctic Hydro og Fallorku?

Arctic Hydro hefur óskað eftir formlegum, óskuldbindandi viðræðum um möguleika á samstarfi og hugsanlega sameiningu Arctic Hydro og Fallorku. Stjórn Norðurorku hefur samþykkt að leita eftir afstöðu eiganda fyrirtækisins, Akureyrarbæjar, og í framhaldinu að fara í frekari greiningarvinnu ef tilefni er til.

Fallorka var stofnuð árið 2002 og er að fullu í eigu Norðurorku, en fyrsta verkefni fyrirtækisins var að byggja tvær vatnsaflsvirkjanir í Djúpadalsá í Eyjafirði, Djúpadalsvirkjanir I og II árin 2004 og 2006. Fallorka keypti Glerárvirkjun I árið 2018 af Norðurorku og lauk við byggingu á nýrri vatnsaflsvirkjun í Glerá ofan Akureyrar, sem nú hefur fengið heitið Glerárvirkjun II. Fallorka hóf árið 2007 raforkusölu á almennum markaði um allt lant. 

Fram kemur á vef Fallorku að fyrirtækið standi nú einnig fyrir fleiri virkjunarkostum í nágrenni Akureyrar, meðal annars í Djúpadal. „Einnig hefur Fallorka verið að skoða möguleika á beislun vindorku og er útlit fyrir þeim möguleika ansi gott,“ segir einnig á vef fyrirtækisins. 

Arctic Hydro lítur til virkjun vindafls

Á vef Arctic Hydro segir meðal annars að fyrirtækið sérhæfi sig í þróun virkjanakosta á Íslandi fyrir raforkuframleiðslu og starfi einungis á sviði endurnýtanlegra orkugjafa í því sambandi. Félagið var upphaflega stofnað í kringum möguleg tækifæri á sviði vatnsaflsvirkjana, en hefur undanfarið jafnframt litið til og unnið að virkjunarkostum á sviði vindafls.

Þar segir einnig: 

Félagið leitar uppi og stendur að frumhönnun, frekari útfærslum og framkvæmdum mögulegra virkjanakosta, hvort heldur sem slíkir kostir hafa áður komið til skoðunar af hálfu annarra, til að mynda Orkustofnunar, eða þá að félagið þróar áður óþekkta virkjanakosti frá grunni. Þannig nær starfsemi félagsins til allra þátta virkjunar, allt frá upphafi hugmyndar um mögulega virkjun til og með reksturs viðkomandi virkjunar.

Markmið félagsins eru langtímamarkmið og fela í sér að skapa raunveruleg verðmæti til lengri tíma litið fyrir alla hlutaðeigandi aðila. Félagið ætlar sér að vera leiðandi einkaaðili á sviði raforkuframleiðslu á Íslandi enda eru gífurleg tækifæri til staðar á Íslandi fyrir félag eins og Arctic Hydro með tilheyrandi tækifærum og möguleikum fyrir eigendur orkuauðlinda.