Fara í efni
Þór

Sæti í úrslitaleiknum í húfi gegn FH í kvöld

Matea Lonac, Hulda Bryndís Tryggvadóttir og Martha Hermannsdóttir með Íslandsbikarinn við komuna til Akureyrar í vor, þar sem fjöldi fólks tók á móti KA/Þór á flugvellinum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Íslandsmeistarar KA/Þórs í handknattleik verða í eldínunni í kvöld, þegar undanúrslit bikarkeppninnar fara fram á Ásvöllum í Hafnarfirði. Meistararnir mæta FH klukkan 20.30 og Fram og Valur eigast við klukkan 18.00. Báðir leikirnir verða sýndir beint á aukarás Ríkissjónvarpsins, RUV2.

Ef allt verður með felldu fer KA/Þór í úrslit því liðið er miklu sterkara en FH, sem leikur í næst efstu deild, Grill 66 deildinni. Erfiðara er hins vegar að spá um úrslit í viðureign Fram og Vals, en hvort liðið sem fer áfram verður úrslitaleikurinn verðugt verkefni fyrir andstæðinginn – sem vonandi verður KA/Þór. Úrslitaleikurinn er á dagskrá á laugardaginn klukkan 13.30

KA/Þór leikur nú í fjórða skipti í undanúrslitum bikarkeppninnar, „fyrst gerðist það árið 2009 og þá steinlá liðið 21-36 einmitt gegn FH. Árið 2018 féllu stelpurnar úr leik eftir hörkuleik gegn Haukum en tókst að hefna fyrir tapið gegn Haukum árið 2020 en þurftu að sætta sig við tap gegn Fram í úrslitaleiknum,“ segir í upprifjun á heimasíðu KA í morgun.

Bikarkeppninni lýkur venjulega á vorin en vegna Covid-19 var langt hlé gert á allri keppni síðasta vetur og lokakafla bikarkeppninnar frestað til þess að hægt væri að ljúka Íslandsmótinu á skikkanlegum tíma. KA/Þór varð Íslandsmeistari í vor eins og flestum er án efa í fersku minni, og Stelpurnar okkar geta því bætt bikarmeistaratitlinum við um helgina.