Þór
Rúta KA/Þórs fauk útaf og festist í skafli
08.01.2023 kl. 06:00
Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þór, sallarólegur í rútunni eftir að hún festist. Hann lætur ekki slá sig svo auðveldlega út af laginu!
Fall er fararheill, segir á góðum stað, og sú speki átti að nokkru leyti við Stelpurnar okkar í handboltaliði KA/Þórs í gær. Þær unnu mjög mikilvægan sigur á liði Selfoss á útivelli í Olís deildinni, efstu deild Íslandsmótsins. Ferðin suður gekk hins vegar ekki áfallalaust. Rútan sem flutti liðið fauk nefnilega hálf út af veginum og festist í snjóskafli þegar skammt var eftir á Selfoss.
Engum varð meint af. „Já, við fukum útaf veginum og spegillinn á rútunni fór á ljósastaur! Þetta hefði getað farið verr en við vorum pikkföst í snjóskafli rétt fyrir utan Selfoss. Við vorum dregin upp og rétt náðum leiknum!“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs, við Akureyri.net.