Fara í efni
Þór

Rúnar stýrir Aue fram eftir vetri

Sveinbjörn Pétursson og Rúnar Sigtryggsson.

Rúnar Sigtryggsson verður áfram þjálfari Aue í þýsku 2. deildinni í handbolta eftir áramótin. Hann tók við tímabundið eftir að aðalþjálfari liðsins veiktist af Covid snemma í desember; félagið leitaði til Rúnars, sem þekkti vel til mála, enda hafði hann þjálfað Aue um fjögurra ára skeið áður en fjölskyldan flutti heim til Íslands.

Rúnar hefur samið áfram við Aue, heldur utan um miðjan mánuðinn og stýrir því að minnsta kosti í sex vikur. Enn er þó með öllu óljóst hvenær þjálfarinn, Stephen Swat, getur snúið aftur til starfa. Rúnar stýrði liði Aue í sex leikjum, einn vannst, tveir enduðu með jafntefli en þrír töpuðust. Sveinbjörn Pétursson, markvörður, er á mála hjá Aue.