Fara í efni
Þór

Ótrúlegt að leikur FH og Þórs/KA var markalaus

Harpa Jóhannsdóttir, til vinstri, stóð í marki Þórs/KA í dag og varði vel. Emelía Ósk Krüger kom inn á seint í leiknum og var nálægt því að skora með fyrstu snertingunni; þrumaði boltanum í þverslá og niður. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA og FH gerðu markalaust jafntefli í bráðfjörugum leik á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði í dag. Þar með hafa bæði lið lokið keppni í Bestu deildinni þetta sumarið. Stelpurnar okkar í Þór/KA ljúka keppni í 5. sæti með 33 stig og FH er sæti neðar.

Þór/KA lék mjög vel og skapaði sér úrvals tækifæri til að skora en Herdís Halla Guðbjartsdóttir, markvörður FH var frábær; varði nokkrum sinnum glæsilega og var besti maður vallarins. Herdís Halla er aðeins 16 ára og þetta var þriðji leikur hennar í Bestu deildinni.

Heimamenn fengu líka góð færi til að skora, þó ekki eins mörg, en Harpa Jóhannsdóttir í marki Þórs/KA lék einnig vel og sá við þeim.

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, sagði eftir leik að lið hans hefði átt að vinna vegna þess hve mörg færi það skapaði. „Ég verð því að hrósa manni leiksins sem var markvörðurinn þeirra, hún varð mjög vel,“ sagði hann í samtali við Vísi. 

„En þrátt fyrir að hafa ekki náð að skora þá fannst mér stelpurnar okkar vera frábærar í kvöld. Ég er hrikalega ánægður með allar, bæði þær sem að byrjuðu leikinn en líka þær sem komu inn á.“

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna á vef KSÍ.

Smellið hér til að sjá umfjöllun Vísis

Smellið hér til að sjá umfjöllun fotbolta.net

Smellið hér til að sjá umfjöllun mbl.is

VIÐBÓT

  • Bryndís Arna Níelsdóttir úr Val var kjörin besti leikmaður deildarinnar í sumar og Katla Tryggvadóttir úr Þrótti efnilegust. Leikmenn deildarinnar velja og niðurstaðan var tilkynnt eftir leikina.
  • Tveir Akureyringar, Sandra María Jessen fyrirliði Þórs/KA, og Arna Sif Ásgrímsdóttir, leikmaður Vals, voru á meðal fjögurra efstu í kjörinu eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í dag.
  • Besti dómarinn í Bestu deild kvenna 2023, valinn af leikmönnum deildarinnar, var Þórður Þorsteinn Þórðarson og er þetta annað árið í röð sem Þórður er valinn besti dómarinn í deildinni.