Fara í efni
Þór

Ótrúleg umskipti og dramatík – MYNDIR

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA og Stjarnan gerðu ótrúlegt 3:3 jafntefli í 10. umferð Bestu deildar kvenna á Þórsvelli nú í dag. Stjörnukonur komust í 3:0 forystu í fyrri hálfleik en þrjú mörk frá heimaliðinu í þeim seinni urðu til þess að liðin þurftu að skiptast á jafnan hlut.

Spilamennska Þórs/KA í fyrri hálfleiknum var afleit og án efa með því verra sem liðið hefur sýnt í sumar. Liðið skapaði sér ekki færi í fyrri hálfleiknum og Stjörnukonur höfðu öll völd. Melissa Lowder, markmaður liðsins, sá til þess að forysta gestanna var ekki stærri þegar flautað var til hálfleiks. Hún varði þá nokkrum sinnum vel, til dæmis meistaralega á 10. mín. þegar Jasmín Erla Ingadóttir átti góðan skalla eftir hornspyrnu. 

Lið Þórs/KA sýndi mikinn karakter í seinni hálfleiknum í að koma til baka gegn vel mönnuðu Stjörnuliði. Eftir að fyrsta mark Þórs/KA leit dagsins ljós var allt annað að sjá til liðsins sem skilaði sér í tveimur mörkum til viðbótar. 

Eftir leikinn er Þór/KA í þriðja sæti deildarinnar með 16 stig en hefur lokið einum leik meira en flest önnur lið í deildinni. Næsti leikur Þórs/KA er 4. júlí næstkomandi þegar liðið heimsækir Keflavík.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna úr leiknum

_ _ _

0:1 – STJÖRNUKONUR SKORA STRAX Á ÞRIÐJU MÍNÚTU

Það voru aðeins tvær mínútur liðnar af leiknum þegar Stjörnukonur komust yfir. Sædís María átti þá hornspyrnu beint í varnarmann Þór/KA. Sædís náði þá boltanum aftur og átti góða fyrirgjöf inn á markteig Þór/KA. Þar var Snædís María Jörundsdóttir sem náði að skalla boltann í netið. Skallinn var ekki fastur en hann var af stuttu færi og dugði til að sigra Melissu í markinu.

_ _ _

0:2 – HEIÐA RAGNEY TVÖFALDAR FORYSTU GESTANNA

Á 12. mínútu bætti Heiða Ragney Viðarsdóttir, fyrrum leikmaður Þórs/KA, við öðru marki gestanna. Sædís Rún átti þá hornspyrnu frá hægri inn í teig Þór/KA. Melissa fór út í teiginn og reyndi að ná til boltans en það tókst ekki. Heiða Ragney kom þá með hlaup á fjærstöngina og renndi boltanum í opið markið.

_ _ _

0:3 – JASMÍN ERLA BÆTIR VIÐ ÞRIÐJA MARKI STJÖRNUNNAR

Á 37. mínútu kom þriðja mark leiksins. Andrea Mist Pálsdóttir gerði þá vel í að vinna boltann við vítateigslínuna, keyra upp hægra megin og leggja boltann út í teig á Úlfu Dís Úlfarsdóttur. Hún átti skot sem Melissa náði ekki að halda. Boltinn barst þá yfir á fjærstöngina á Jasmín Erlu Ingadóttur sem renndi boltanum í netið. Þegar þarna var komið við sögu höfðu Stjörnukonur öll völd á vellinum og ekkert sem benti til þess að Þór/KA liðið myndi skora mark í leiknum. Staðan var 3:0 þegar flautað var til hálfleiks. 

_ _ _

1:3 – HULDA VINNUR VÍTI OG HULDA SKORAR ÚR VÍTI

Heimakonur byrjuðu seinni hálfleikinn þó mun betur og ljóst að Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari liðsins hefur farið vel yfir hlutina í hálfleik. Á 48. mínútu vann Hulda Ósk Jónsdóttir víti. Húnn fékk boltann á hægri kantinum og keyrði inn í teiginn þar sem hún var felld af varnarmanni stjörnunnar. Hulda Björg Hannesdóttir fór á vítapunktinn og skoraði fram hjá Auði Scheving í marki Stjörnunnar.

_ _ _

2:3 – KAREN MARÍA MINNKAR MUNINN

Á 74. mínútu hleypti Karen María Sigurgeirsdóttir spennu í leikinn á ný þegar hún skoraði annað mark Þórs/KA. Karen fékk þá boltann inn fyrir vörn Stjörnunnar eftir undirbúning frá Karlottu Andradóttur sem hafði komið inn á sem varamaður. Karen gerði vel í að vippa boltanum yfir Auði í markinu og í netið. Við marið jókst sóknarþungi Þórs/KA liðsins á meðan Stjörnukonur freistuðu þess að halda fengnum hlut.

_ _ _

3:3 – IÐUNN RÁN FULLKOMNAR VIÐSNÚNINGINN

Það var svo á 90. mínútu leiksins sem Iðunn Rán Gunnarsdóttir, sem hafði einnig komið inn á sem varamaður, jafnaði metinn. Eftir hornspyrnu sem Stjörnukonur hreinsuðu frá barst boltinn aftur inn í teig. Eftir klafs í teignum barst hann utarlega í teiginn þar sem Iðunn átti fast viðstöðulaust skot sem small í stönginni. Frákastið skaust í bakið á Auði Scheving sem hafði skutlað sér á eftir boltanum og í netið. Markið er skráð sem sjálfsmark hjá Auði en Iðunn átti heiðurinn af markinu.