Fara í efni
Þór

Óskar næsti þjálfari körfuboltaliðs Þórs

Körfuknattleiksdeild Þórs hefur ráðið Óskar Þór Þorsteinsson sem þjálfara meistaraflokks karla og mun hann stýra liðinu í 1. deildinni á komandi tímabili. Óskar er uppalinn hjá Stjörnunni í Garðabæ semur við Þór til 2 ára. Þetta kemur fram á heimasíðu Þórs.

Óskar, sem er 25 ára gamall hefur undanfarin sjö ár þjálfað yngri flokka Stjörnunnar og á þeim tíma stýrt liðum til fimm Íslandsmeistaratitla. Auk þess að þjálfa hjá Stjörnunni var Óskar aðstoðarþjálfari Álftaness síðustu tvö ár svo hann hefur nokkra reynslu af þjálfun meistaraflokks.

„ ... Bjarki Ármann [Oddsson, sem lét af starfi þjálfara Þórs í vor] og stjórnin höfðu samband við mig í vor og kváðust hafa áhuga á að fá mig norður. Hrafn Kristjánsson [fyrrverandi þjálfari Þórs, sem Óskar starfaði með á Álftanesi] hafði mælt með mér við Þór,“ segir Óskar á heimasíðu Þórs. Hann segir það vissulega áskorun að flytja norður eða öll heldur bara spennandi tækifæri. „Það er alltaf óvissa sem fylgir því að stíga inn í nýtt hlutverk en ég trúi því að ég sé tilbúinn í þetta verkefni eftir góðan skóla hjá Hrafni Kristjáns og fleiri frábærum þjálfurum sem ég hef fengið að læra af á síðustu árum“.

Nánar hér á heimasíðu Þórs