Fara í efni
Þór

Öruggur sigur Þórs á Gróttumönnum

Ásgeir Marinó Baldvinsson fagnar fyrsta marki sínu fyrir Þór, í síðasta heimaleik - 5:1 sigri á Þrótti. Ásgeir gerði tvö mörk i kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar voru í stuði í kvöld og unnu öruggan sigur á liði Gróttu, 4:2, á heimavelli. Leikurinn var í Lengudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. 

Ásgeir Marinó Baldvinsson gerði tvö mörk og þeir Fannar Daði Malmquist og Jóhann Helgi Hannesson sitt markið hvor. Þórsarar gerðu þrjú mörk i fyrri hálfleik og komust í 4:0 áður en gestirnir minnkuðu muninn. Grótta skoraði svo aftur í blálokin en átti ekki möguleika á að komast nær.

Þórsarar eru þar með komnir upp í sjötta sæti með 19 stig, aðeins einu stigi á eftir Fjölni sem er í fimmta sæti.

Segja má að leikplan Þórsara hafi gengið fullkomlega upp í fyrri hálfleik. Vörnin var lágvaxnari en venjulega þar sem hvorki Birgir Ómar Hlynsson né Orri Sigurjónsson voru með og Orri Hjaltalín, þjálfari, sagði eftir leikinn að stefnan hefði verið sú að bíða átekta óvenju aftarlega og sækja hratt þegar færi gæfist.

Þórsarar gerðu þrjú mörk á 13 mínútna kafla og fóru langt með að tryggja sér sigur.

  • 1:0 (26. mínúta) Fannar Daði Malmquist átti glæsilega sendingu á Ásgeir Marinó Baldvinsson, sem Gróttumenn náðu ekki að veiða í rangstöðugildruna, og Ásgeir lyfti boltanum snyrtilega yfir markmanninn og í netið.
  • 2:0 (30.) Jóhann Helgi Hannesson skoraði af öryggi eftir góðan undirbúning Sigurðar Marinós Kristjánssonar. Þótt ekki hafi verið langt á milli marka verður að geta þess að Grótta fékk sannkallað dauðafæri á þeim tíma, en því var klúðrað eftirminnilega.
  • 3:0 (39.) Fannar Daði Malmquist Gíslason skoraði eftir magnaðan sprett. Fékk boltann úti á vinstri kanti, brunaði inn á vítateig og þrátt fyrir að varnarmaður gerði harða hríð að honum tókst Fannari að lauma boltanum framhjá markmanninum og rétta leið.
  • 4:0 (55.) Eftir töluverðan darraðardans í vítateig Gróttu barst boltinn til Ásgeirs Marinós Baldvinssonar sem kom honum í markið. Ekki fallegasta mark sumarsins en kemst þó á lista yfir þrjú bestu mörk Ásgeirs fyrir Þór – enda það þriðja sem hann gerir!

Grótta minnkaði muninn á 67. mínútu þegar Kjartan Kári Halldórsson skoraði með sniðugu skoti úr aukaspyrnu og Pétur Theódór Árnason gerði annað mark Seltirninga undir lokin eftir horn.

Birgir Ómar Hlynsson er lítillega meiddur og því ekki með, Ólafur Aron Pétursson og Orri Sigurjónsson voru í banni og Jakob Snær Árnason var heldur ekki í hópnum í kvöld.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.