Fara í efni
Þór

Öll þrjú lið bæjarins í eldlínunni í dag

KA-maðurinn Rodri, Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir leikmaður Þórs/KA og Þórsarinn Marc Rochester Sörensen. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Knattspyrnulið bæjarins, Þór/KA, KA og Þór, verða öll í eldlínunni í dag á Íslandsmótinu, þar af tvö á Selfossvelli! Kvennaliðið ríður á vaðið þar á bæ, KA-menn mæta á heimavöll sinn í Sambandsdeild Evrópu og kljást við Framara og Þórsarar mæta síðan heimamönnum á Selfossi.

  • 14.00 Selfoss - Þór/KA
    Næst síðasta umferð hefðbundinnar keppni í Bestu deild kvenna fer fram í dag. Þór/KA er í sjötta sæti með 22 stig en Selfyssingar verma botnsætið með 11 stig. Sex efstu liðin halda áfram keppni um Íslandsmeistaratitil og sæti í Evrópukeppni. Stelpurnar okkar unnu fyrri leik sumarsins við Selfyssinga 3:0 á heimavelli. Í lokaumferðinni um næstu helgi leikur Þór/KA við Tindastól á Sauðarkróki. 
  • 17.00 Fram - KA
    KA er í áttunda sæti með 22 stig eftir 18 leiki í deildinni en Fram er næst neðst með 15 stig að loknum 19 leikjum. KA á fjóra leiki eftir áður en deildinni verður skipt í tvennt og er nú fimm stigum á eftir FH sem er í sjötta sæti, því síðasta sem gefur sæti í efri hlutanum. FH hefur einnig lokið 18 leikjum og KA-menn eiga einmitt eftir að sækja Hafnfirðingana heim.
  • 18.00 Selfoss - Þór
    Efsta liðið tryggir sér sæti í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins, en fjögur næstu fara í umspil um hitt lausa sætið. Þór er með 23 stig í sjötta sæti þegar fimm umferðir eru eftir, Vestri stigi ofar í fimmta sæti og Leiknir er með 26 stig. Grindavík er aðeins stigi á eftir Þór, með 22, Grótta hefur 21 og Njarðvík 20. Spennan er því mikil og allt getur enn gerst. Þór á til dæmis bæði eftir að mæta Njarðvík og Grindavík á heimavelli.