Fara í efni
Þór

Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir!

„Þórir heitinn félagi minn vitnaði oft í bókmenntirnar um að öll dýrin í skóginum ættu að vera vinir,“ skrifaði Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, á Twitter í dag og birti mynd af þeim Vöndu Sigurgeirsdóttur, formanni KSÍ, þar sem þau hittust í Hamri, félagsheimili Þórs á Akureyri í dag.

Vanda og Sævar gefa bæði kost á sér til formennsku í KSÍ á ársþingi sambandsins sem fram fer um næstu helgi.

Vanda var þar gestur á súpufundi hjá Þórsurum og Sævar á leið af fundi með Reimari Helgasyni, starfsbróður sínum hjá Þór.

„Ég og Vanda sækjumst bæði eftir sama embættinu innan knattspyrnunnar en erum á sama tíma góðir félagar. Þannig eiga íþróttirnar að vera, tökumst á en höfum samt gaman. #8dagar,“ skrifar Sævar á Twitter.