Fara í efni
Þór

Ólafur Aron frá Þór – töluverðar breytingar

Ólafur Aron Pétursson rær á önnur mið eftir tvö keppnistímabil með Þór. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Töluverðar breytingar verða á leikmannahópi Þórs í knattspyrnu fyrir næstu leiktíð frá því sem hann var í sumar.

Á kynningarkvöldi knattspyrnudeildar í gærkvöldi var greint frá því að nokkrir leikmenn sem voru með Þór í sumar væru á förum;

  • Miðjumaðurinn Ólafur Aron Pétursson hverfur á braut, en hann lék með Þór 2020 og á nýliðnu tímabili. Ólafur Aron hóf ferilinn í KA en hefur einnig leikið með Magna.
  • Þórsarar fengu markvörðinn Daða Frey Arnarsson að láni frá FH, eftir að Aron Birkir Stefánsson og Auðunn Ingi Valtýsson meiddust báðir fyrir mót. Daði heldur suður á ný.
  • Gert ráð fyrir að Aron Birkir verði leikfær næsta sumar, en hann missti af öllu nýliðnu keppnistímabili vegna meiðsla
  • Hinn ungi Auðunn Ingi verður aðalmarkvörður þar til Aron Birkir verður klár í slaginn, og eftir það munu þeir berjast um stöðuna.
  • Alvaro Montejo lék með Þór framan af sumri en fékk leyfi til að halda heim til Spánar á ný.
  • Franski framherjinn Dominiqe Malonga tók þátt í tveimur leikjum með Þór, kom meiddur til félagsins og var sendur heim.
  • Guðni Sigþórsson tók þátt í sjö leikjum í sumar en skipti yfir í Magna á miðju tímabili.
  • Jakob Snær Árnason var með Þór í 11 leikjum en skipti yfir í KA um mitt sumar.
  • Jóhann Helgi Hannesson, markahæsti leikmaður Þórs frá upphafi, lagði skóna á hilluna eftir að keppnistímabilinu lauk í haust.
  • Liban Abdulahi, hollensk-sómalskur miðjumaður, verður ekki áfram með Þór.
  • Petar Planic, króatískur miðvörður, verður ekki áfram hjá Þór.

Þorlákur Árnason, nýráðinn þjálfari, lagði áherslu á að ungir, uppaldir Þórsarar myndu fái tækifæri næsta sumar. Einn þeirra, Nikola Kristinn Stojanovic, var í sumar lánaður til KF í Fjallabyggð en kemur til baka. Þorlákur sagði að leikmenn yrðu fengnir í nokkrar ákveðnar stöður til að styrkja liðið; miðvörðurinn Jordan Damachoua er einn þeirra, eins og Akureyri.net greindi frá í gærkvöldi. Áður hafði verið samið við útherjann Harley Willard sem lék með Víkingi frá Ólafsvík. Gera má ráð fyrir að Þór semji við einn til tvo að auki.