Fara í efni
Þór

Óheiðarlegt að saka dómara um svindl

Orri Freyr Hjaltalín, þjálfari Þórs. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þóroddur Hjaltalín, formaður dómaranefndar Knattspyrnusambands Íslands, segir á fótboltavef Íslands, fotbolti.net, að nefndin muni skoða ummæli Orra Freys Hjaltalín, þjálfara Þórs, eftir leikinn við Fram í gærkvöldi.

Orri Freyr gagnrýndi dómarann harðlega og bætti við að sér þætti „gjörsamlega galið að vera með aðstoðardómara frá hinu liðinu á Akureyri.“ Slíkt yrði aldrei tekið í mál í Reykjavík. „Ég er búinn að horfa á hans frammistöðu hjá okkur í síðustu leikjum og hún hefur ekki verið okkur í hag ef við orðum það pent," sagði Orri í viðtalinu. Þar vísaði hann til KA-mannsins Patriks Freys Guðmundssonar.

Þóroddur segist telja Orra Frey hafa farið yfir strikið. „Við getum alltaf haft skoðanir á dómgæslunni eins og öllu öðru, og eigum að gera það, en það fer rosalega fyrir brjóstið á mér þegar verið er að saka okkur um að svindla,“ segir Þóroddur í viðtalinu. 

Viðtal fotbolti.net við Orra Hjaltalín

Viðtal fotbolti.net við Þórodd Hjaltalín