Fara í efni
Þór

Öðruvísi fótbolti, skemmtilegt tímabil

María Catharina Ólafsdóttir Gros.

Akureyri.net greindi frá því í gær að María Catharina Ólafsdóttir Gros hefði endurnýjað samning sinn við hollenska úrvalsdeildarfélagið Fortuna Sittard. María kveðst ánægð í Hollandi og gaman að kynnast öðruvísi fótbolta. 

María spilaði 11 leiki með liðinu og skoraði tvö mörk, en hún fór utan til Hollands um síðastliðin áramót. Fyrstu tvo leikina var hún varamaður, en eftir það var hún í byrjunarliðinu í öllum leikjum. „Tímabilið í Hollandi var mjög skemmtilegt, gaman að kynnast öðruvísi fótbolta og læra nýja hluti,“ segir María um dvöl sína hjá hollenska liðinu. „Hollenski boltinn er smá öðruvísi og það tók smá tíma að venjast því hvernig liðið vildi spila, en gaman að læra nýja hluti og mér finnst þeirra leikskipulag henta mér mjög vel.“


María í varabúningi Fortuna Sittard.

Það verður forvitnilegt að fylgjast með Maríu á næsta tímabili í Hollandi, sem verður þá hennar fyrsta heila tímabil í Hollandi, en hún steig fyrstu skrefin erlendis þegar hún fór til Celtic FC í Skotlandi á miðju sumri 2021. Eftir það tímabil kom hún aftur heim og spilaði með Þór/KA síðari hluta sumars í fyrra og hélt svo til Hollands um áramótin. Önnur íslensk knattspyrnukona, Hildur Antonsdóttir, er hjá Fortuna Sittard.