Fara í efni
Þór

Oddur gerði níu mörk í mikilvægum sigri

Oddur Gretarsson í leik með Balingen-Weilstetten í Þýskalandi.

Oddur Gretarsson gerði níu mörk, þar af þrjú af vítalínunni, þegar Balingen-Weilstetten vann annan leikinn í röð í þýsku 1. deildinni í handknattleik í kvöld. Oddur og félagar sóttu Erlangen heim og unnu 34:32.

Heimamenn voru fjórum mörkum yfir í háflleik, 16:12 og komust sex mörkum yfir snemma í seinni hálfleik, en Oddur og samherjar hans bitu í skjaldarrendur og tryggðu sér sigur. „Þetta var virkilega sterkur sigur og annar sigur okkar í röð á útivelli,“ sagði Oddur við Akureyri.net í kvöld.

„Við vorum í veseni með varnarleikinn í fyrri hálfleik en þrátt fyrir að lenda sex mörkum undir snemma í seinni hálfleik héldum við ró okkar og náðum hægt að rólega að ná þeim og komast yfir.“

Balingen-Weilstetten er í 16. sæti af 20 liðum með fjögur stig eftir átta leiki.

Arnór Þór Gunnarsson (á neðri myndinni) og samherjar í Bergischer hafa byrjað betur og eru með sjö stig eftir sjö leiki, í 13. sæti. Arnór gerði fjögur mörk þegar liðið tapaði um síðustu helgi fyrir THW Kiel á heimavelli, 32:27.

„Það var erfiður leikur. Það var reyndar jafnt framan af, 15:15 í hálfleik og jafnræði framan af seinni hálfleik en eftir það setti Kiel í sjötta gír. Þetta var samt góður leikur hjá okkur, leikur sem við getum lært margt af,“ sagði Arnór við Akureyri.net.