Fara í efni
Þór

Naumur sigur KA/Þórs í hörkuleik gegn HK

Dæmigerð mynd fyrir leikinn lengi vel; HK-ingar öflugir í vörninni og heimamenn í þónokkrum erfiðleikum með að komast í gegnum hana. Og dómarinn gefir merki um að styttist í leiktöf ... Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Íslandsmeistarar KA/Þórs lentu í miklum vandræðum með lið HK, sem er í næst neðsta sæti Olísdeildar kvenna í handbolta, í KA-heimilinu í gær. Stelpurnar okkar knúðu þó fram sigur, 26:23, eftir að gestirnir voru einu marki yfir í hálfleik, 14:13.

HK gerði fyrsta markið og var yfir allan fyrri hálfleikinn, mest þremur mörkum. Seinni hálfleikurinn var mjög jafn, HK-ingar með frumkvæðið og það var ekki fyrr en átta mínútur voru liðnar að KA/Þór komst yfir í fyrsta sinn, 17:16 – Marta Hermannsdóttir skoraði; sjá mynd af því hér að neðan.

Staðan í toppbaráttunni breyttist ekki í gær; Fram vann Aftureldingu mjög örugglega og er efst, KA/Þór stigi á eftir en Valur getur komist stigi upp fyrir KA/Þór með sigri á Haukum í dag.

KA/Þór á tvo leiki eftir í deildinni. Liðið ætti að sigra Aftureldingu auðveldlega á heimavelli því Mosfellingar eru án stiga á botninum. Ekkert er þó gefið í íþróttum ... Í lokaumferðinni sækir KA/Þór svo Val heim og þær ræðst væntanlega hvort liðið kemst beint í fjögurra liða úrslit. Tvö efstu liðin sitja í sex liða úrslitum.

Smelltu hér til að sjá alla tölfræðina.

Martha Hermannsdóttir lék vel í gær. Hér skorar hún af harðfylgi, varnarmönnum HK til sárra vonbrigða, og kemur Íslandsmeisturunum yfir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson