Fara í efni
Þór

Mjög jákvæð viðbrögð Leverkusen við óléttunni

Sandra María Jessen og unnusti hennar, Tom Luca Küster, með dótturina Ellu Ylví Küster sem fæddist í september 2021. Myndin er tekin þegar Sandra María samdi við Þór/KA á nýjan leik fyrir ári, í janúar 2022. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Skrif Söru Bjarkar Gunnarsdóttur knattspyrnukonu um samskipti hennar við franska félagið Lyon þegar hún varð ólétt á þeim tíma sem hún var samningsbundin félaginu hafa vakið heimsathygli og sterk viðbrögð. Þar koma við sögu bæði samskipti félagsins við hana, launagreiðslur, viðmót og hótanir eftir að hún kom til baka og svo að lokum dómsmál sem Sara Björk vann.

Sandra María Jessen varð barnshafandi síðla árs 2020 þegar hún var samningsbundin þýska úrvalsdeildarfélaginu Bayer 04 Leverkusen. Hún hefur mjög ólíka sögu að segja frá sinni upplifun og viðbrögðum þýska félagsins. Hún lýsir allri upplifun sinni af samskiptum við fólkið í kringum Leverkusen-liðið sem jákvæðri. Hún segist þó alls ekki vilja stíga fram í þeim tilgangi að gera lítið úr máli Söru Bjarkar, en það sé gott að hægt sé að segja frá jákvæðum hliðum á þessum málum.

„Mín saga, mín upplifun af að verða ólétt í fótboltanum, þegar ég var á atvinnumannasamningi, var rosalega góð,“ segir Sandra María í samtali við Akureyri.net. „Þetta er heldur ekki eitthvað sem gerist á hverjum degi. Ég var fyrsti leikmaðurinn í sögu Leverkusen sem varð ólétt þannig að þau þekktu þetta ekki neitt. Þau þurftu að byrja á núlli og skipuleggja sig og þess vegna fannst mér viðbrögðin hjá þeim rosalega jákvæð. Ég held að það hafi verið ein eða tvær konur í deildinni sem áttu barn þegar ég varð ólétt. Þetta var smá í umræðunni þegar ég varð ólétt og ég fór einmitt í einhver viðtöl og podcast úti og ég held að Þjóðverjarnir almennt séu að gera mjög vel í þessum málum. Þess vegna er gaman að það sé jákvæð upplifun af þessu líka því það er mjög leiðinlegt hvernig þetta gerðist allt hjá Söru Björk.“

Jólafrí, ökklameiðsli og ólétta

Sandra María spilaði síðasta leik Leverkusen fyrir jólafrí 2020, en meiddist síðan á ökkla á síðustu æfingu fyrir jól þannig að hún var hvort eð er frá æfingum um tíma og því ekki aðkallandi að koma strax fram með fréttirnar. Í febrúar kom svo að því að hún upplýsti liðsfélagana um stöðuna, orðin góð af ökklameiðslunum og komin 10-12 vikur á leið.

Sandra María ólétt og spilar ekki meira í ár | akureyri.net

Þegar þetta kom upp var rúmlega hálft ár eftir af samningi hennar við Leverkusen, en hún upplýsti þá að forráðamenn félagsins hafi tilkynnt henni að hún væri velkomin aftur um leið og hún treysti sér til. „Það er gott að fara með þá vitneskju inn í meðgönguna,” sagði Sandra María í samtali við Akureyri.net á þessum tíma.

„Ég kemst ég að því milli jóla og nýárs á Íslandi að ég er ólétt og fer síðan aftur út eftir jólafríið og átti tíma hjá sjúkraþjálfara áður en liðið kom saman af því að ég var með smá vesen í ökkla og það er manneskja sem ég treysti mjög vel og er mjög náin leikmönnum. Þannig að ég byrjaði á að segja henni það og bað hana að gefa mér ráð, hvað væri best að gera, hvaða leið ég ætti að fara að þessu. Hún sagði að það væri gott að tala við lækninn hjá liðinu og láta kannski alla í sjúkrateyminu vita til að byrja með af því að þá var ég bara komin sex til sjö vikur, þá var þetta ekkert öruggt. Við ákváðum það saman sem teymi að bíða með það þangað ég var komin 12 vikur, þegar talað er um að það sé öruggt að tilkynna,“ segir Sandra María.

Sandra María Jessen fagnar einu marka sinna fyrir Þór/KA í fyrrasumar; þarna jafnaði hún 3:3 í heimaleiknum gegn ÍBV. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

„Ekki ein manneskja sem brást illa við“

Sandra María fékk sjúkraþjálfarann sem hún talaði við í upphafi með sér á fund með þjálfaranum og aðstoðarþjálfaranum þar sem þær upplýstu um stöðuna. Í framhaldinu kallaði hún stelpurnar í liðinu saman á fund og sagði þeim fréttirnar. „Þær samglöddust mér allar, voru kannski ekki alveg að búast við þessu, en þær voru allar mjög glaðar með mér.“ Hún er ekki alveg viss hvort hún man tímalínuna rétt, gæti hafa sagt þeim frá þessu aðeins fyrr, eða þegar um tíu vikur voru liðnar af meðgöngunni.

„Það var ekki ein manneskja sem brást eitthvað illa við þessu,“ segir Sandra María spurð um viðbrögðin hjá félaginu. „Það voru allir strax sem samglöddust mér og vildu styðja mig. Þau kölluðu mig á fund í stjórninni og þjálfarateyminu, og við fórum yfir nýju reglurnar hjá FIFA, sem voru þannig að ég held að það eigi að borga 80% af laununum á meðan ég var ólétt.“

Sandra María fékk strax að vita frá Leverkusen að félagið myndi styðja hana algjörlega og félagið vildi raunar borga henni áfram hennar reglulegu laun út samningstímann. „Samningurinn minn rann út 1. ágúst og ég átti í byrjun september. Það var þarna mánaðar bil á milli, en þá var ég komin á laun í fæðingarorlofi,“ segir hún. Það kom því ekkert millibilsástand hvað fjármálin varðar. Um leið og samningurinn rann út fékk hún greidd laun í fæðingarorlofi í Þýskalandi.

„Ég kláraði bara minn samning hjá Leverkusen og þau borguðu mér 100%, mín venjulegu laun, alla mánuðina á meðgöngunni og það kom alltaf á réttum tíma, aldrei neitt vesen. Ég þurfti aldrei að ganga á eftir því.“

Sandra María segir sambandið við þjálfarann og annað starfsfólk einnig hafa verið mjög gott á meðgöngunni. „Þau voru búin að tala oft við mig og þjálfarinn heyrði oft í mér. Ég mætti mikið á æfingar, ég æfði eins mikið með þeim og ég gat, eins lengi og ég gat. Sjúkraþjálfararnir tóku mig á aukaæfingu þar sem ég var ekki með þeim í kontakt, ég var bara ein með bolta þannig að þau gerðu í rauninni allt sem þau gátu. Ég fékk að mæta áfram í styrkinn með liðinu þangað til ég var kominn sjö mánuði á leið. Það var bara búið til nýtt prógramm fyrir mig, ég var í meðhöndlun hjá öllum sjúkraþjálfurunum og bara ekki neitt vesen.“

Átti kost á Leverkusen, en valdi Akureyri

Hún eignaðist dóttur í september 2021, en það kom svo reyndar ekki til þess að hún færi til baka til Leverkusen því í janúar 2022 samdi hún við Þór/KA og í mars 2022 tók hún í fyrsta skipti í rúma 14 mánuði þátt í keppnisleik í fótbolta.

Söndru Maríu var boðið að halda áfram hjá Leverkusen eftir fæðingarorlofið. „Þau töluðu við mig um að þegar ég væri búin með fæðingarorlofið eða þegar ég teldi mig klára að byrja aftur þá ætluðum við að setjast niður og skrifa undir nýjan samning ef ég vildi á þeim tímapunkti gera samning. Þannig að þau voru búin að bjóða mér samning og umboðsmaðurinn minn var meira að segja kominn með hann í hendurnar. Þá kom spennandi tilboð frá Þór/KA sem var ekki hægt að segja nei við og þá ákvað ég að koma hingað.“

Sandra María Jessen heim til Þórs/KA | akureyri.net

Framhaldið hefur síðan verið hálfgert ævintýri því hún spilaði alla leiki Þórs/KA í Bestu deildinni og Mjólkurbikarnum á nýliðnu ári, skoraði mest allra leikmanna liðsins, átta mörk, aðeins þremur mörkum minna en sú markahæsta í deildinni. Í maí bætti hún félagsmetið hjá Þór/KA og varð sá leikmaður sem skorað hefur mest fyrir félagið efstu deild. Í haust skoraði hún sitt 100. mark fyrir Þór/KA í deild, bikar og öðrum opinberum mótum. Hún var síðan boðuð aftur á landsliðsæfingar í nóvember og í janúar var hún valin íþróttakona Þórs árið 2022.

Þetta er stærra dæmi með fjölskyldu

En hvernig voru þá viðbrögðin hjá Leverkusen þegar hún ákvað að snúa ekki aftur til þeirra heldur semja við Þór/KA og flytja heim til Akureyrar?

„Leikmennirnir voru mjög svekktir. Þær voru búnar að búa sig undir það að Ella fengi alltaf að vera með, alls staðar í kringum liðið. Þetta voru líka margar góðar vinkonur sem vildu að ég myndi vera áfram. En á sama tíma, bæði þær, þjálfararnir, stjórnendur og allir studdu mig 100%. Þau sögðu, auðvitað hefðum við viljað halda þér hérna áfram, þú hefðir fengið samning og við hefðum viljað hjálpa þér að koma til baka, en þau skilja alveg að maður þarf stuðning og þetta er bara stærra dæmi þegar maður er kominn með fjölskyldu,“ segir Sandra María Jessen, knattspyrnukona og móðir hjá Þór/KA.