Fara í efni
Þór

Miklar breytingar í vændum hjá Þór

Þorlákur Árnason og Bjarni Sigurðsson, nýr formaður knattspyrnudeildar Þórs, eftir að þeir undirrituðu samninginn. Hjá þeim stendur Bjarki Þór Viðarsson, einn leikmanna Þórs. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þorlákur Árnason var fyrr í dag ráðinn þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu hjá Þór til þriggja ára, eins og fram kom á Akureyri.net. Hann segist spenntur, kveðst munu breyta liðinu töluvert og aðal verkefni þjálfara og leikmanna sé að gleðja og búa til skemmtilegar minningar fyrir stuðningsmennina.

Þorlákur er reyndur í bransanum; hefur bæði þjálfað meistaraflokka karla og kvenna hérlendis, yngri landslið Íslands og stjórnað hæfileikamótun KSÍ en síðast starfaði hann fyrir Knattspyrnusamband Hong Kong.

Verkefninu í Hong Kong lauk í sumar, Þorlákur sagðist í gær hafa litið í kringum sig bæði erlendis og hér heima, rætt við fleiri félög en þótt verkefnið hjá Þór afar spennandi.

Við smullum saman

Þór leikur í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins og gekk ekki vel í sumar. Þegar spurt er hvað hafi heillað hann; hvað hafi orðið til þess að hann ákvað að semja við Þór, svarar Þorlákur: „Það var í raun fundurinn sem ég átti með framkvæmdastjóra félagsins, íþróttafulltrúanum og stjórninni. Strax þá small í raun allt saman; allt sem mig langaði að gera núna er það sem Þórsara vantar núna.“

Hvað er það?

„Fótbolti er alls staðar eins og málið snýst um tvennt; að vinna fótboltaleiki og þróa leikmenn, hvort sem það er hjá Þór eða annars staðar. Það verða miklar breytingar á öllu; á umgjörðinni, nýtt fólk er að koma inn í stjórn með öðru vísi hugsun, og svo tel ég að ég muni gera töluvert miklar breytingar á liðinu, sérstaklega leikskipulagi. Þór þarf að vera með sérstöðu; það er lykilatriði, og hefur verið það í gegnum tíðina. Þór hefur mikið spilað á heimamönnum og þetta hefur verið baráttulið með mjög öfluga stuðningsmenn, en mér finnst stundum hafa skort skýrari leikstíl og því langar mig að breyta. Hlutverk okkar, bæði þjálfara og leikmanna, er að gleðja og búa til góðar minningar fyrir stuðningsmennina – um það snýst málið.“

Viljum gefa ungum Þórsurum tækifæri

Nokkrir ungir og efnilegir leikmenn eru í herbúðum Þórs og fengu tækifæri í sumar. Er ekki spennandi að fá slíka drengi í hendurnar?

„Jú, það er spennandi, og ég vil þakka Orra [Hjaltalín, þjálfara liðsins í sumar] fyrir hans hlut í ferlinu. Hann kom inn og þorði að spila ungum leikmönnum, sem er gríðarlega mikilvægt, og það er gott að koma að þannig félagi. Ég hef alltaf staðið fyrir því. Við erum á Íslandi, ekki í atvinnumannaumhverfi og mér finnst menn stundum hafa farið fram úr sér. Við viljum gefa ungum og efnilegum Þórsurum tækifæri en jafnframt sækja menn til að hjálpa þessum ungu Þórsurum að taka næstu skref. Þeir sem við viljum sækja þurfa að vera sterkir leikmenn eða sterkir leiðtogar. Við teljum okkur geta gert betur en í sumar og ætlum að vanda okkur mikið við það að ná í leikmenn.“

Aðalmálið er þó, segir Þorlákur, „að þróa þá leikmenn sem eru í Þór. Það er rétt hjá þér, að spennandi leikmenn eru að koma upp og hér eru leikmenn sem ég þekki síðan ég var með 17 ára landsliðið á sínum tíma og aðrir sem voru í kringum 15 ára landsliðið hjá mér. Ég þekki því yngri leikmennina í Þórsliðinu nokkuð vel.“

Þjálfun og stefnumótun

Þórsarar sömdu í sumar við framherjann Harley Willard, sem leikið hefur með Víkingi frá Ólafsvík. Samningur hans við Víking rennur út í haust og hann kemur þá til Þórs. „Hann er þekkt stærð, hefur skorað og lagt upp mörk í Lengjudeildinn í þrjú ár. Ég hef séð hann spila töluvert og hann mun styrkja Þórsliðið. Svo erum við að vinna í öðrum leikmönnum; erum byrjaðir að skoða en ætlum að vanda okkur vel, eins og ég sagði. Bæði þurfa þeir leikmenn að passa inn í hópinn og svo vil ég líka gefa mér tíma til að gefa mönnum tækifæri, ekki bara dæma þá eftir síðasta sumri eða einhverju þar áður. Við flýtum okkur hægt en verðum að fá leikmenn því liðið hefur misst menn; Jóhann Helgi Hannesson, markahæsti maður í sögu Þórs, var að hætta og [spænski framherjinn] Alvaro fór á miðju tímabili. Í raun er ekki til framherji í meistaraflokki eða 2. flokki því menn hafa verið færðir úr stöðu til að spila þar.“

Samningur Þórs og Þorláks er til þriggja ára, óuppsegjanlegur fyrstu tvö árin. Auk þess að þjálfa meistaraflokk vinnur hann að stefnumótun fyrir knattspyrnudeild Þórs.

Þorlákur Árnason og Bjarni Sigurðsson, formaður knattspyrnudeildar Þórs. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.