Fara í efni
Þór

Mikill viðsnúningur og Þórsarar töpuðu

Arnór Þorri Þorsteinsson fór á kostum í sókninni í dag; gerði þá átta mörk og 10 alls í leiknum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar töpuðu 36:31 fyrir ÍR í dag í 2. umferð næst efstu deildar Íslandsmótsins í handbolta, Grill 66 deildarinnar. Leikið var í Reykjavík. Eftir mjög góðan fyrri hálfleik, að mörgu leyti, reyndist sá seinni töluverð brekka.

Þórsliðið náði góðu forskoti í fyrri hálfleiknum en eftir að heimamenn gerðu tvö síðustu mörkin var Þór fjórum mörkum yfir í hálfleik, 20:16.

Í fyrri hálfleiknum urðu Þórsarar fyrir því áfalli að missa tvo mikilvæga sóknarmenn út af; strax eftir rúmar tvær mínútur var brotið illa á Viðari Erni Reimarssyni þegar hann reyndi að brjótast í gegnum vörn ÍR. Viðar skall harkalega í gólfið og gat ekki leikið meira. Um miðjan fyrri hálfleik meiddist svo Aron Hólm Kristjánsson á nára.

Vert er að geta þess að ÍR-ingurinn Dagur Sverrir Kristjánsson fékk umsvifalaust rautt spjald fyrir brotið á Viðari Erni og kom ekki meira við sögu.

Þegar tæpar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum fékk annar ÍR-ingur rautt spjald og var útilokaður frá frekari þátttöku; Gabríel Freyr Kristinsson, fyrir að gefa Arnóri Þorra Þorsteinssyni olnbogaskot þegar Þórsarinn reyndi að komast framhjá honum.

Arnór Þorri tók að miklu leyti við keflinu í sókninni eftir að Viðar Ernir og Aron Hólm voru horfnir af vettvangi; hann fór á kostum í fyrri hálfleik, gerði þá átta mörk og 10 alls í leiknum.

Staðan í hálfleik var 20:16 fyrir Þór sem fyrr segir en hræðileg byrjun á seinni hálfleik varð Þórsurum að falli. Hvorki gekk né rak í sókninni og ÍR-ingar, sem gerðu tvö síðustu mörk fyrri hálfleiks, skoruðu níu fyrstu í seinni hálfleik! Staðan hafði þá breyst úr 20:14 fyrir Þór í 25:20 fyrir heimamenn.

Arnór Þorri Þorsteinsson gerði 10 mörk fyrir Þór í leiknum, Halldór Yngvi Jónsson 4, Garðar Már Jónsson 4, Jón Ólafur Þorsteinsson 3, Viktor Jörvar Kristjánsson 2, Elvar Örn Jónsson 2, Aron Hólm Kristjánsson 2, Auðunn Ingi Valtýsson 1, Ágúst Örn Vilbergsson 1, Aðalsteinn Ernir Bergþórsson 1 og Arnar Þór Fylkisson 1.