Fara í efni
Þór

Mikil dramatík á Þórsvelli – MYNDIR

Una Móeiður Hlynsdóttir og Amalía Árnadóttir fagna sigurmarkinu gegn Blikum í dag sem sú fyrrnefnda gerði í blálokin. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA vann 3:2 sigur á Breiðabliki í annarri umferð efri hluta Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á VÍS-vellinum (Þórsvellinum) í dag. Mörk Þórs/KA gerðu Karen María Sigurgeirsdóttir, Sandra María Jessen og Una Móeiður Hlynsdóttir.

Eftir leikinn er Þór/KA komið með 29 stig, fer með sigrinum upp fyrir FH og situr nú í 5. sæti deildarinnar. Sigurinn hafði einnig þau áhrif að Valur er Íslandsmeistari kvenna í knattspyrnu en Breiðablik hefði þurft að vinna leikinn til að halda titilvonum sínum á lífi.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna úr leiknum

Smelltu hér til að sjá stöðuna í deildinni

_ _ _ _

FJÖRUG BYRJUN Á LEIKNUM

Leikurinn fór vel af stað og voru fyrstu 10 mínútur leiksins afar fjörlegar. Sandra María Jessen komst í gott færi strax í upphafi leiks en skot hennar fór rétt fram hjá markinu. Stuttu seinna fékk Katrín Ásbjörnsdóttir dauðafæri en skot hennar af markteig fór á einhvern hátt yfir markið.

_ _ _ 

1:0 – KAREN MARÍA SKORAR MEÐ GÓÐUM SKALLA

Eftir fjöruga byrjun á leiknum róaðist hann töluvert en á 45. mínútu leiksins leit fyrsta markið dagsins ljós. Domique Randle vann boltann framarlega á vellinum. Hún kom boltanum á Huldu Ósk Jónsdóttur sem keyrði upp að endamörkum og átti frábæra sendingu út í teig. Þar kom Karen María Sigurgeirsdóttir aðvífandi að vítapunktinum og skoraði með góðum skalla. Staðan orðin 1:0 fyrir Þór/KA og þannig var hún í hálfleik.

_ _ _ 

2:0 – SANDRA MARÍA TVÖFALDAR FORYSTUNA EFTIR SKYNDISÓKN

Heimakonur tvöfölduðu forystu sína í upphafi seinni hálfleiks. Sandra María Jessen gerði það eftir góða skyndisókn. Melissa greip inn í fyrir gjöf gestanna og var fljót að koma boltanum í leik á Huldu Ósk. Hún átti góðan sprett upp völlinn og fann Margréti Árnadóttur á hægri kantinum. Margrét komst inn í teig og átti fyrirgjöf á fjærstöngina þar sem Sandra María var mætt og renndi boltanum í netið.

_ _ _ 

2:1 – GESTIRNIR FÁ VÍTASPYRNU OG MINNKA MUNINN

Gestirnir náðu þó að minnka muninn aðeins fimm mínútum eftir annað mark heimakvenna. Katrín Ásbjörnsdóttir fiskaði þá víti eftir að Agnes Birta Stefánsdóttir braut á henni eftir mistök í vörn Þór/KA. Agla María Albertsdóttir fór á punktinn og skoraði af öryggi. Staðan orðin 2:1 og gestirnir komnir aftur inn í leikinn.

_ _ _ 

2:2 – AGLA MARÍA JAFNAR MEÐ FRÁBÆRU SKOTI

Agla María var svo aftur á ferðinni á 77. mínútu leiksins þegar hún skoraði með frábæru skoti. Hún fékk boltann rétt utan teigs vinstra megin og fékk nægan tíma til að munda skotfótinn. Skotið endaði í slánni og þaðan í netinu. Staðan því orðin jöfn á Þórsvelli. Bæði lið virtust ekki sátt við að skipta stigunum á milli sín og reyndu hvað þau gátu til að skora sigurmark í framhaldi.

_ _ _ 

3:2 – UNA MÓEIÐUR TRYGGIR SIGURINN UNDIR LOKIN.

Það fór á endanum svo að heimakonur náðu að koma inn sigur marki. Una Móeiður Hlynsdóttir gerði það á 90. mínútu leiksins. Hulda Björg átti langa sendingu fram völlinn þar sem boltinn hrökk af varnarmanni gestanna og í Amalíu Árnadóttur sem hafði komið inn á stuttu áður. Þaðan fór boltinn inn á teiginn þar sem Una Móeiður var ein og óvölduð og skoraði. Þetta reyndist loka mark leiksins og 3:2 sigur heimakvenna staðreynd.