Fara í efni
Þór

Meistararnir enn ekki komnir á flug

Brotið á Huldu Bryndísi Tryggvadóttur og víti dæmt þegar rúm mínúta var eftir í dag. Rut Jónsdóttir jafnaði úr vítinu, með síðasta marki leiksins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Íslands- og bikarmeistarar KA/Þórs hafa enn ekki náð sama flugi á Íslandsmótinu í handbolta í vetur og á síðasta keppnistímabili. HK kom í heimsókn í KA-heimilið í dag og liðin skildu jöfn, 26:26, eftir að gestirnir voru einu marki yfir í hálfleik, 13:12.

KA/Þór er með fimm stig eftir fjóra leiki en Fram er efst í deildinni með níu stig að loknum fimm leikjum.

Þegar tæpar 10 mínúturu voru eftir var staðan 23:21 fyrir KA/Þór en HK jafnaði 24:24 og 25:25 og komst svo yfir 26:25, en Rut Jónsdóttir jafnaði úr víti þegar tæp mínúta var eftir.

Sóknarleikur meistaranna var ekki góður í dag gegn sterkri vörn gestanna, og varnarleikur Stelpnanna okkar, sem oft var frábær síðasta vetur, var beinlínis slakur á köflum. Lið HK galopnaði vörnina hvað eftir annað. Ekki er þó ástæða til að örvænta; vitað er hvað í leikmönnum býr og tímabilið rétt að byrja.

Fyrir leikinn hafði KA/Þór skorað 26 mörk að meðaltali í deildarleikjunum þremur og fengið á sig 25,6 mörk að meðaltali! Úrslit dagsins ættu því tæpast að koma áhugamönnum um tölfræði á óvart!

Mörk KA/Þórs í dag: Martha Hermannsdóttir 6 (öll úr víti), Rut Jónsdóttir 5, Rakel Sara Elvarsdóttir 4, Sólveig Lára Kristjánsdóttir og Unnur Ómarsdóttir 3 hvor, Aldís Ásta Heimisdóttir og Hulda Bryndís Tryggvadóttir 2 hvor og Ásdís Guðmundsdóttir 1. Matea Lonac varði 7 skot.

Markahæsti HK-ingurinn, Jóhanna Margrét Sigurðardóttir, á auðum sjó í dag og gerir eitt af átta mörkum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.