Fara í efni
Þór

Matea Lonac frábær en KA/Þór tapaði

Matea Lonac var frábær í marki KA/Þórs í Elche í dag, en það dugði reyndar ekki til sigurs. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA/Þór tapaði fyrir CB Elche, 22:18, í fyrri leik liðanna í Evrópubikarkeppni kvenna í handbolta á Spáni í dag. Þetta telst heimaleikur Íslands- og bikarmeistaranna en síðari viðureign liðanna, á morgun, er heimaleikur spænska liðsins.

Markvörðurinn Matea Lonac var besti maður KA/Þórs í dag; var frábær í leiknum og varði 17 skot, þar af 2 víti.

Mörk KA/Þórs: Unnur Ómarsdóttir og Rakel Sara Elvarsdóttir 4 hvor, Aldís Ásta Heimisdóttir og Martha Hermannsdóttir 3 hvor, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 2 (1 víti) og Anna Þyrí Halldórsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir 1 hvor.

CB Elche er „alvöru lið“ eins og Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs, sagði við Akureyri.net fyrir Spánarferðina. Liðið leikur mjög sterka vörn og sóknin var að mörg leyti góð. Þrátt fyrir tap í dag er augljóst mál að Stelpurnar okkar eiga góða möguleika á að komast áfram í keppninni því liðið getur leikið mun betur en í dag. Matea var frábær í markinu sem fyrr segir en en allar hinar geta leikið betur; þær virkuðu óvenju óöruggar í sókninni, of mörg skot voru léleg og góð færi nýttust ekki.