Þór
Markvörðurinn Ómar Castaldo til Þórs
06.12.2022 kl. 06:05
Ómar Castaldo Einarsson í leiknum gegn Þór á SaltPay vellinum í sumar þar sem KV tapaði 3:1 í Lengjudeildinni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Markvörðurinn Ómar Castaldo Einarsson skrifaði undir tveggja ára samning við knattspyrnudeild Þórs á dögunum. Frá þessu var greint á heimasíðu Þórs.
Ómar er 21 árs og uppalinn í KR, en hefur síðustu þrjú ár verið aðalmarkvörður Knattspyrnufélags Vesturbæjar (KV), sem er venslafélag KR. Hann stóð marki KV á SaltPay vellinum (Þórsvellinum) þegar Þórsarar sigruðu gesti sína 3:1 í Lengjudeildinni í sumar.
„Hann hefur einnig spilað 5 leiki fyrir unglingalandslið Íslands. Ómar er tæknilega góður markvörður sem er kominn með góða reynslu í meistaraflokki þrátt fyrir ungan aldur,“ segir á heimasíðu Þórs.
Aron Birkir Stefánsson hefur verið aðalmarkvörður Þórs undanfarin ár og Auðunn Ingi Valtýsson er einnig í herbúðum félagsins.