Fara í efni
Þór

Markaskór Þórsara eru enn týndir!

Birgir Ómar Hlynsson þrumar að marki ÍBV í kvöld en hafði ekki erindi sem erfiði frekar en aðrir Þórsarar upp á síðkastið. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar töpuðu 1:0 fyrir ÍBV á heimavelli í kvöld í Lengjudeildinni í knattspyrnu, næst efstu deild Íslandsmótsins. Frammistaðan var fín á köflum en eins og undanfarið tókst þeim ekki að koma boltanum í markið þrátt fyrir ágæt tækifæri til þess.

Þetta er sjötti deildarleikurinn í röð sem Þór tekst ekki að skora; Þórsari hefur ekki komið boltanum í mark andstæðings síðan Ásgeir Marinó Baldvinsson gerði fjórða markið í 4:2 sigri á Gróttu 23. júlí. Leikir án marks eru reyndar sjö í röð því snemma í ágúst töpuðu Þórsarar 4:0 fyrir Vestra í bikarkeppninni.

Fjórir ungir og bráðefnilegir leikmenn fengu tækifæri hjá Þór í kvöld:

  • Bjarni Guðjón Brynjólfsson, sem er nýorðinn 17 ára, var í sjötta skipti í byrjunarliðinu í sumar en hann hefur komið við sögu í 15 deildarleikjum á keppnistímabilinu.
  • Aron Ingi Magnússon er 16 ára - verður 17 ára 22. september. Honum var skipt inn á eftir 67 mínútur.
  • Kristófer Kristjánsson, sem var skipt inn á eftir 73 mínútur, er nýorðinn 17 ára.
  • Ingimar Arnar Kristjánsson, sem kom inn á alveg undir lokin,  varð 16 ára í mars. Þetta var fyrsti deildarleikur hans í meistaraflokki.

Þá voru fjórir til viðbótar úr byrjunarliðinu um tvítugt: Elmar Þór Jónsson er fæddur 2002 Ásgeir Marinó Baldvinsson 2001, Hermann Helgi Rúnarsson 2000 og Birgir Ómar Hlynsson 2001.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna.