Fara í efni
Þór

Markalaust og Þórsarar sigla áfram lygnan sjó

Þórsarinn Vilhelm Ottó Biering Ottósson og Guðfinnur Þór Leósson, leikmaður Aftureldingar á harðahlaupum í dag. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þór og Afturelding gerðu markalaust jafntefli á Þórsvellinum (SaltPay vellinum) í dag í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Bæði lið sigla í raun lygnan sjó; geta hvorki komist upp um deild né eru þau í fallhættu, og leikurinn bar þess merki.

Fyrri hálfleikurinn var þokkalega opinn, liðin fengu þó ekki mörg opin færi en Þórsarar það besta; Bjarni Guðjón Brynjólfsson komst einn í gegn en Esteve Pena Albons, markvörður Aftureldingar, varði.

Þegar á leið virtust liðin sáttari við að halda einu stigi en taka mikla áhættu og freista þess að næla í öll þrjú. Seinni hálfleikurinn var heldur rólegur, fótafimi leikmanna yljaði ekki áhorfendum en sól skein í heiði og sá um það og sá sem þetta skrifar skemmti sér helst yfir linnulitlum ábendingum leikmanna gestaliðsins til dómaratríósins. Þar stóð áðurnefndur Pena Albons upp úr; hann býr sennilega yfir betri sjón en aðrir menn, sá til dæmis að rangstöðudómur í 80 metra fjarlægð var rangur. Geri aðrir betur! 

Eftir leiki dagsins eru lið Þróttar úr Vogum og Knattspyrnufélags Vesturbæjar (KV) fallin úr deildinni. Þórsar teljast í þriðja neðsta sæti en eru eitt þriggja liða með 24 stig, einnig Grindavík og Kórdrengir, Selfoss hefur 25 og Vestri er með 26, í sjötta sæti.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

Ásgeir Marinó Baldvinsson með boltann í dag.

Þórsarinn Ion Perelló Machi og Jökull Jörvar Þórhallsson, leikmaður Aftureldingar.

Harley Willard í baráttu um boltann í dag.