Fara í efni
Þór

María framlengir hjá Fortuna Sittard

María er númer 9 hjá Fortuna Sittard. Myndirnar eru teknar af vef félagsins.

Hollenska úrvalsdeildarfélagið Fortuna Sittard hefur tilkynnt um áframhaldandi veru Maríu Catharinu Ólafsdóttur Gros hjá félaginu. María samdi við Fortuna Sittard um áramótin og spilaði síðari hluta tímabilsins í Hollandi. Áður hafði hún verið hjá Celtic í einn vetur, kom svo heim til Akureyrar á miðju sumri 2022 og spilaði síðari hluta tímabilsins með Þór/KA í Bestu deildinni. 

María hefur núna framlengt samning sinn við Fortuna Sittard út næsta tímabil. María er tvítug og á að baki 66 meistaraflokksleiki með Þór/KA og 31 landsleik með U16, U17, U19 og U23 landsliðum Íslands. María lék sinn fyrsta meistaraflokksleik með Þór/KA í upphafi árs 2018, þá nýorðin 15 ára.

María var fljót að komast inn í byrjunarliðið hjá hollenska félaginu og verið fastamaður þar nánast frá því að hún fór út. Liðið lenti í 3. sæti í hollensku úrvalsdeildinni. Tvö lið eru þar í sérflokki, meistaralið Ajax sem endaði með 55 stig, og FC Twente sem fékk stigi minna. Fortuna Sittard kom svo nokkuð á eftir þessum liðum í 3. sætinu með 36 stig, einu stigi meira en PSV.