Fara í efni
Þór

Ljótt brot í lokin og Þór tapaði naumlega

Þórsarinn Madison Anne Sutton hefur betur í baráttu um boltann við Nereja Brajac. Til hægri er Cierra Myletha Johnson sem gerði sigurkörfuna. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar töpuðu naumlega í gærkvöldi fyrir liði Aþenu/Leiknis/UMFK í 1. deild kvenna í körfubolta, næst efstu deild Íslandsmótsins. Gróft brot undir lokin – sem fór framhjá dómurunum – setti ljótan blett á sigur gestanna.

Cierra Myletha Johnson tryggði gestunum sigur, 77:75, með flautukörfu; Þórsarar voru einu stigi yfir þegar Johnson skaut utan þriggja stiga línunnar, leiktíminn rann út á meðan boltinn var í loftinu og þar sem hann rataði rétta leið í körfuna var sigurinn í höfn

Leikurinn var mjög jafn nánast allan tímann en í fjórða og síðasta leikhluta sigldu Þórsarar hægt og bítandi fram úr og þegar tæpar tvær mínútur voru eftir höfðu þeir níu stiga forystu. En þá small allt í baklás.

Þegar staðan var 73:68 fyrir Þór og ein mínúta og 44 sekúndur eftir af leiknum átti sér stað atvik sem virtist slá Þórsara út af laginu. Gestirnir voru í sókn þegar María Líney Dalmay, sem er aðeins 15 ára en öflugur leikmaður, hljóp á fullri ferð á Rut Herner Konráðsdóttur svo hún skall í gólfið, lá eftir og varð að fara af velli. Erfitt er að trúa öðru en þetta hafi verið viljandi gert eftir að hafa horft á upptöku af atvikinu. Ótrúlegt brot, sem fór því miður framhjá dómurunum.

Í umfjöllun um leikinn á heimasíðu Þórs er birt myndband af atvikinu. Smellið hér til að sjá greinina, myndbrotið er neðst í greininni.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.

Rut Herner Konráðsdóttir liggur óvíg eftir að leikmaður gestanna hljóp hana niður af miklum krafti.