Fara í efni
Þór

Linda Guðmundsdóttir íþróttafulltrúi Þórs

Linda Guðmundsdóttir, verðandi íþróttafulltrúi Þórs. Mynd af heimasíðu félagsins.

Linda Guðmundsdóttir hefur verið ráðin íþróttafulltrúi Þórs og tekur til starfa 1. maí næstkomandi. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.

Þar segir að Jón Stefán Jónsson, núverandi íþróttafulltrúi, verði frá sama degi verkefnastjóri og muni m.a. sjá um nýja heimasíðu Þórs auk þess að sinna öðrum tilfallandi störfum fyrir aðalstjórn félagsins.

Í tilkynningu á heimasíðu Þórs segir ennfremur:

Linda er Þórsurum að góðu kunn. Hún hefur lengi unnið fyrir félagið sem sjálfboðaliði og var m.a. gjaldkeri í stjórn unglingaráðs handknattleiksdeildar frá 2009 til 2020.

„Ég er mjög glaður að fá Lindu til starfa hjá íþróttafélaginu okkar. Við þekkjum Lindu og hennar störf vel og hún þekkir ekki síður vel uppbyggingu félagsins og hvernig hlutirnir ganga fyrir sig, eftir margra ára farsæla setu í stjórn unglingaráðs handboltans. Starfslýsing íþróttafulltrúa verður örlítið frábrugðin því sem áður var, Linda mun til að mynda einbeita sér meira að starfi deilda félagsins, í því skyni að tryggja enn betur farsæla starfsemi og góð samskipti í félaginu okkar,“ segir Reimar Helgason, framkvæmdastjóri Þórs.

Linda starfaði sem innheimtufulltrúi hjá Heimsferðum 2006 – 2007, fyrirtækjafulltrúi Íslandsbanka 2007 – 2020 og hefur unnið sem stuðningsfulltrúi í Giljaskóla frá því í janúar 2021. Eiginmaður hennar er Geir Kristinn Aðalsteinsson, mannauðsstjóri Hölds og eiga þau þrjá syni.

Reimar Helgason, framkvæmdastjóri Þórs, Linda Guðmundsdóttir og Jón Stefán Jónsson.