Fara í efni
Þór

Lífsnauðsynlegur sigur Þórsara

Gísli Jörgen Gíslason var áberandi í sóknarleik Þórsara í kvöld. Hér fagnar hann einu níu marka sinna. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar sigruðu ÍR-inga í kvöld, 28:25, í Olísdeild Íslandsmótsins í handbolta í Höllinni á Akureyri. Vitað var að Þórsarar yrðu að sigra í kvöld til að eygja von um að halda sæti sínu í deildinni og með fullri virðingu fyrir ÍR var þetta skyldusigur á heimavelli, enda ÍR í neðsta sæti deildarinnar án stiga.

Staðan var jöfn í hálfleik 14:14 og Þórsarar náðu ekki að hrista gestina almennilega af sér; það var ekki fyrr en tíu mínútur voru eftir að þeir náðu þriggja marka forystu. Eftir leikinn eru Þórsarar komnir með sex stig úr 14 leikjum, fjórum stigum á eftir Gróttu sem er í þriðja neðst sæti. Átta leikir eru nú eftir og Þórsarar verða að gjöra svo vel að næla í stig hér og þar og vonast til þess að Gróttumenn missi flugið sem þeir hafa verið á undanfarið.

Gísli Jörgen Gíslason, lánsmaður frá FH, var áberandi í sóknarleik Þórsara í kvöld og gerði níu mörk. Igor Kopyshynskyi gerði sjö mörk fyrir Þór, öll nema eitt úr vítakasti. Jovan Kukobat var góður í markinu og varði 19 skot - um 45% þeirra skota sem hann fékk á sig.

Mörk Þórs: Gísli Jörgen Gíslason 9, Igor Kopyshynskyi 7 (6 víti), Þórður Tandri Ágústsson 5, Karolis Stropus 3, Garðar Már Jónsson 3, Hafþór Ingi Halldórsson 1.

Næstu leikir hjá Þór: 

  • ÍBV - Þór, sunnudaginn 21. mars klukkan 15.00
  • Þór - Valur, fimmtudaginn 25. mars klukkan 19.00
  • Þór - Haukar, sunnudaginn 28. mars klukkan 16.00