Fara í efni
Þór

„Léttleikandi“ og á „besta aldri“ í körfubolta

Hafi einhver áhuga á að berja augum „léttleikandi körfuknattleiksfólk á besta aldri“, eins og það er orðað í tilkynningu, gefst gullið tækifæri til þess í Íþróttahöllinni í dag. Gaman gæti verið að bregða sér í Höllina og skemmta sér góða stund, áður en haldið verður í kosningakaffi.

Pollamót Þórs í körfuknattleik, það stærsta hingað til, hefst í Höllinni klukkan 10.30 og keppt verður alveg til 18.30, á tveimur völlum. Keppt verður í flokkum karla 25 til 39 ára, karla 40 ára og eldri og kvenna 20 ára og eldri.

„Gestir og gangandi eru velkomnir í Höllina til að berja augum „léttleikandi körfuknattleiksfólk á besta aldri.“ Ekkert kostar inn á mótið fyrir gesti en það verður opin sjoppa þar sem hægt verður að kaupa sér hamborgara, íþróttadrykki, banana, nammi og gos. Ágóðinn af mótinu rennur til körfuknattleiksdeildar Þórs,“ segir í tilkynningu.

  • Meðan á mótinu stendur geta keppendur og aðrir áhugasamir boðið í áritaða Valencia-keppnistreyju landsliðsmannsins Martins Hermannsonar. Treyjan verður til sýnis á mótsstað.

Pollamóts Þórs í körfuknattleik er styrkt af Viðburða- og vöruþróunarsjóði Akureyrarbæjar.

Hér eru frekari upplýsingar um mótið.