Fara í efni
Þór

Langþráður sigur síst of stór – MYNDIR

Una Móeiður Hlynsdóttir kemur Þór/KA á bragðið með fyrsta marki sínu í Bestu deildinni þegar aðeins 10 mínútur voru liðnar af fyrsta leik hennar í byrjunarliðinu. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA vann sannfærandi sigur á liði Selfyssinga á heimavelli í dag í fyrsta leik áttundu umferðar Bestu deildar kvenna, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Stelpurnar okkar unnu 3:0 og var sigurinn síst of stór því leikmenn Þórs/KA fengu mörg góð tækifæri til að skora meira.

Yfirburðir heimaliðsins voru töluverðir strax frá byrjun. Þór/KA lék undan sterkum, hlýjum sunnanvindi og augljóst mál að leikmenn voru staðráðnir í að misstíga stig ekki á heimavelli gegn andstæðingi sem þeir eiga að vinna sé allt með felldu. Þór/KA hefur tapað heima í sumar fyrir bæði Keflavík og FH.

Framherjinn Una Móeiður Hlynsdóttir, sem er aðeins 17 ára, var í byrjunarliði Þórs/KA í fyrsta sinn í Bestu deildinni. Hún lék töluvert í vetur, meiddist í vor en það leynir sér ekki að hún hefur náð sér að fullu; þessi fótfrái framherji er áræðinn, marksækinn og fullur sjálfstrausts. Gaman verður að fylgjast með Unu í sumar; með öfluga miðjumenn fyrir aftan sig og hinar mögnuðu Söndru Maríu Jessen og Huldu Ósk Jónsdóttur á köntunum, ætti hún að eiga mörg marktækifæri í vændum!

Þór/KA fór upp í fjórða sæti deildarinnar með sigrinum – hefur nú 12 stig að loknum átta leikjum – en Selfyssingar eru á botninum sem fyrr, með aðeins fjögur stig að loknum átta leikjum. 

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

_ _ _

FYRSTA MARK Í FYRSTA LEIK
Heimamenn hófu leikinn af miklum krafti og augljóst var að þjarma átti að gestunum eins og hægt var strax frá byrjun. Ekki voru nema 10 mínútur liðnar þegar fyrsta markið kom, en aðdragandinn var raunar sá að leikmaður Selfoss spyrnti boltanum fram völlinn þar sem Melissa Anne Lowder, markvörður Þórs/KA, sendi hann rakleiðis til baka. Varnarmaður gestanna skallaði boltann en ekki tókst betur til en svo að  hann fór í átt að marki þeirra, Una Móeiður Hlynsdóttir var fljót að átta sig og tók á rás með Sif Atladóttur á hælunum, lék inn í teig og skoraði af mikilli yfirvegun. Idun-Kristine Jörgensen kom út á móti en Una renndi boltanum undir hana eins og þrautreyndur framherji.

_ _ _

FIMMTA MARK SÖNDRU MARÍU
Hægri bakvörðurinn Dominique Randle sendi boltann fyrir mark Selfyssinga utan af kanti á 13. mínútu. Sif Atladóttir hugðist bægja hættunni frá, skallaði boltann en hann rataði ekki rétta leið; Sandra María Jessen var á markteignum aftan við Sif og þrumaði boltanum þegar í stað upp í markhornið fjær! Sandra María er þar með orðin markahæst í deildinni, hefur gert fimm mörk.

_ _ _

HÁRFÍNT FRAMHJÁ
Aðeins tveimur mínútum eftir að Sandra María skoraði var Karen María Sigurgeirsdóttir nálægt því að bæta þriðja markinu við. Gott skot hennar rétt utan vítateigs smaug naumlega framhjá vinstri markstönginni.
 

_ _ _

ANNAÐ MARK SÖNDRU? ... NEI, RANGSTAÐA
Um miðjan hálfleikinn kom Sandra María boltanum aftur í mark Selfyssinga eftir góðan undirbúning hinnar líflegu Unu Móeiðar, sem fór illa með gamla brýnið Sif Atladóttur, og sendi á Söndru en hún var rangstæð að mati aðstoðdómarans.

_ _ _

TAHNAI Í DAUÐAFÆRI
Ekki leið langur tími þar til Thanai Annis fékk gullið tækifæri til að skora, hún fékk boltann við markteiginn og þrumaði að marki en Idun-Kristine Jörgensen varði mjög vel.
 

_ _ _

ÞRIÐJA MARKIÐ - ÞRJÚ STIG Í HÖFN
Hin kraftmikla Tahnai Annis sem hefur leikið afar vel með Þór/KA í sumar gerði þriðja og síðasta markið þegar um 10 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Í upphafi hálfleiksins höfðu gestirnir náð að skapa hættu við mark Þórs/KA en þarna réðust úrslitin. Jakobína Hjörvarsdóttir tók hornspyrnu frá hægri, sendi yfir að markteigshorninu fjær þar sem Tahnai var ákveðnust og kom boltanum í markið. Ekki er gott að segja hvort hún skallaði boltann eða axlaði hann, en í markið fór hann sem er það eina sem máli skiptir.
 

_ _ _

SKEMMTILEG TILÞRIF
Eftir frábæran undirbúning margnefndar Unu Móeiðar komst Hulda Ósk Jónsdóttir í bærilegt færi hægra megin í vítateignum en þrumuskot hennar fór naumlega framhjá.
Þarna var stundarfjórðungur liðinn af seinni hálfleik.

_ _ _

SKOT SÖNDRU NAUMLEGA VARIÐ
Ekki munaði miklu að Sandra María bætti sjötta marki sínu í deildinni við þegar rúmur klukkutími var liðinn. Þrumuskot hennar utarlega úr vítateignum stefndi neðst í fjærhornið en Idun-Kristine kom fingurgómunum í boltann þannig að Þór/KA fékk hornspyrnu.

_ _ _

AGNES BIRTA BJARGAR Á LÍNU
Selfyssingar komust næst því að skora þegar leiktíminn var nánast búinn. Eftir hornspyrnu stefndi boltinn í markið en Agnes Birta Stefánsdóttir stökk til og bjargaði á línu.