Fara í efni
Þór

„Langaði að prófa eitthvað gjörólíkt“

Aron Einar og Kristbjörg með syni sína á Akureyri í sumar. Fremstur stendur Óliver Breki, Aron heldur á Tristani Þór og Kristbjörg á Alexander. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, hefur senn þriðja keppnistímabilið með liði Al-Arabi í Katar. Þeim Kristbjörgu Jónasdóttur og sonunum þremur líður mjög vel í smáríkinu við Persaflóa og Aron segir ekki loku fyrir það skotið að hann ljúki knattspyrnuferlinum þar – fyrir utan eitt sumar með æskufélaginu, Þór heima á Akureyri, þar sem hann segist fyrir löngu hafa ákveðið að taka síðustu skrefin í takkaskónum.

„Fjölskyldunni líður mjög vel. Við búum í hverfi sem er girt af og með góðri öryggisgæslu þannig að strákarnir geta farið út að leika sér með öðrum krökkum í hverfinu án þess að við þurfum að hafa nokkrar áhyggjur af því að þeir fari neitt. Það er mjög ánægjulegt,“ sagði Aron Einar við Akureyri.net þegar hann var í fríi heima á Akureyri nýverið. 

Þeir sem fylgja Kristbjörgu á Instagram vita að Óliver Breki, Tristan Þór og Alexander eru býsna kraftmiklir og fjörugir! 

Minni hraði og harka

„Það er gott að búa í Katar, fótboltinn er ágætur – öðru vísi en ég er vanur, en ég vissi vel hvað ég var að fara út í, ég spila færri leiki en í Englandi og hraðinn og harkan eru mikli minni. Ég var einmitt að leitast eftir því; eftir 11 ár í Englandi, þar af níu ár í einni erfiðustu deild í heimi, var kominn tími til að breyta til,“ segir Aron, og vísar þar til næst efstu deildar í Englandi. Álagið þar er gríðarlegt, fleiri leikir en í úrvalsdeildinni og harkan og baráttan á vellinum með því mesta sem þekkist.

„Ég var farinn að meiðast meira en áður og fann að ég var lengur að jafna mig. Það var oft mikil keyrsla og ég kom oft hálf meiddur í landsleikjatarnir sem var ekki gaman. Þetta var því nákvæmlega það sem ég þurfti á þessum tímapunkti; að fara í deild þar sem átökin eru ekki eins mikil og loftslagið miklu hlýrra. Það er alveg á hreinu að þessi breyting getur lengt ferilinn verulega.“

Hér gæti ég hugsað mér að búa ...

Eftir heimsmeistaramótið í Rússlandi 2018 var Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Íslands, ráðinn þjálfari Al-Arabi og ekki leið á löngu þar til hann hringdi í Aron. Það reyndist ekki tímafrekt að sannfæra Akureyringinn. „Mig langaði orðið að prófa eitthvað gjörólíkt því sem ég var vanur. Það er dálítið fyndið eftir á, að fyrir HM í Rússlandi 2018 var ég meiddur og fór í endurhæfingu í Katar. Eftir það segi ég við Kristbjörgu að ég væri til í að búa þar og spila fótbolta. Hálfu ári síðar erum við flutt til Katar; það var eins og þetta ætti að gerast!“

Aron segir alls ekki hafa verið erfitt að taka stökkið og flytja í annan og gjörólíkan menningarheim. „,Katararnir bera virðingu fyrir okkur og okkar hefðum og ætlast til þess á móti að við gerum það sama gagnvart þeim og þeirra hefðum. Samskiptin við þá eru þess vegna mjög góð.“

Flestir útlendingar búa í sérstökum hverfum, eins og Aron lýsti áðan. „Í okkar hverfi er til dæmis mikið um Hollendinga sem vinna fyrir olíufélagið Shell, Katararnir sjálfir búa hins vegar flestir í villum eða þannig húsnæði annars staðar. En mér finnst samfélagið þarna bara virkilega skemmtilegt.“

Ræði við Al-Arabi í janúar

Aron, sem er nýorðinn 32 ára, á eftir eitt ár af samningi sínum við Al-Arabi. „Við gerðum tveggja ára samning með möguleika á einu ári til viðbótar og þar sem ég spilaði meira en 60% leikjanna á síðasta tímabili framlengdist samningurinn um eitt ár.“

Hann sagðist hafa verið farinn að ræða við forráðamenn Al-Arabi um nýjan samning en þegar Covid skall á hafi öllu verið frestað því óvissan var svo mikil. „Við sjáum hvað gerist í janúar. Þá byrjum við að ræða aftur við félagið og sjáum hvernig málin standa. Við erum áhugasöm um að vera aðeins lengur í Katar og ég gæti vel hugsað mér að klára ferilinn þar – fyrir utan það að ég ætla að spila eitt sumar með Þór áður en ég legg skóna á hilluna.“

Hann segist fyrir löngu hafa ákveðið að leika eitt sumar með Þór í lokin, þótt það hafi ekki farið hátt, þar til í sumar. „Mér finnst það skylda mín að skila til baka því sem Þór gerði fyrir mig þegar ég var ungur. Það er mjög mikilvægt fyrir mig að klára ferilinn þar sem ég byrjaði.“

Enginn veit hvenær að því kemur að Aron klæðist Þórsbúningnum á ný.

„Mér líður það vel í dag að ég er ekkert að velta því fyrir mér hvenær ég muni hætta. Ég sé til hvernig staðan verður þegar samningurinn rennur út í Katar, hvort mér býðst að vera þar áfram eða hvort eitthvað annað spennandi verður í boði. Ég ætla bara að láta það ráðast. Á meðan líkaminn leyfir ætla ég að spila en þegar að því kemur að ekkert spennandi verður lengur í boði þá snýr maður sér bara að öðrum verkefnum.“

Aron og Kristbjörg eru þegar farin að stunda ýmis viðskipti, auk þess sem hann er að mennta sig í þjálfarafræðum. Aron Einar mun því hafa nóg fyrir stafni þegar skórnir fara á hilluna.

Frumraun Íslands á HM, leikurinn gegn Argentínu í Moskvu 16. júní 2018. Ekki vildi betur til en svo að dómarinn steig óvart á ökkla Arons í fyrri hálfleiknum, en fyrirliðinn hafði einmit verið meiddur í þessum sama ökkla lengi fyrir mótið. Meistara Messi, fyrirliða Argentínu, virðist ekki standa á sama. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Aron Einar og Kristbjörg með syni sína á Akureyri í sumar, þegar stórfjölskyldan hittist í Hamri, félagsheimili Þórs, og grillaði saman. Fremstur stendur Óliver Breki, Aron heldur á Tristani Þór og Kristbjörg á Alexander. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.