Fara í efni
Þór

Körfuboltalið Þórs hefur keppni í kvöld

Fyrirliðar liðanna í efstu deild á kynningarfundi í vikunni. Kolbeinn Fannar Gíslason, fyrirliði Þór, er lengst til hægri í fremri röð.

Þórsliðið í körfubolta karla hefur keppni í efstu deild Íslandsmótsins í kvöld, þegar það sækir Grindvíkinga heim. Hópurinn hjá Þór er mjög breyttur frá síðustu leiktíð; allir erlendu leikmennirnir sem voru í herbúðum félagsins eru horfnir á braut, svo og fyrirliðinn, Júlíus Orri Ágústsson, sem hélt til náms í Bandaríkjunum. Sex nýir leikmenn eru komnir til Þórs, þar af fjórir útlendingar.

Samkvæmt spá sérfræðinga verður á brattann að sækja hjá Akureyrarliðinu í vetur. Spá fjölmiðlamanna gerir ráð fyrir því að Þórsarar lendi í 10. sæti deildarinnar, og að aðeins nýliðar Breiðabliks og Vestra verði neðar. Keflvíkingum er spáð efsta sæti. Fulltrúar félaganna spá Þórsurum einnig 10. sæti en gera ráð fyrir að Njarðvíkingar verði efstir í deildinni þegar upp verður staðið. Átta efstu liðin komast í úrslitakeppnina.

Hafa ber í huga að þótt samkvæmisleikur eins og þessi spá sé oft skemmtilegur er óvarlegt taka hann of alvarlega. Ekki er víst að margir hafi séð Þórsliðið spila því það hefur ekki verið mikið á ferðinni! Blaðamaður Akureyri.net hefur ekki séð neitt til liðsins í haust og getur því hvorki dæmt um styrkleika þess né veikleika. 

Leikurinn í Grindavík hefst klukkan 18.15. Fyrsti heimaleikurinn verður gegn nýkrýndum bikarmeisturum Njarðvíkur fimmtudaginn 14. október.

Vert er að geta þess að Subway er orðinn samstarfsaðili Körfuknattleikssambands Íslands um efstu deildir karla og kvenna. Bera þær því nafn fyrirtækisins. Deildirnar hafa lengi verið kenndar við Domino's en segja má að körfuboltamenn séu farnir í pítsunum í bátana.