Þór
Körfuboltadeild Þórs semur við sjö leikmenn
15.06.2023 kl. 06:15
Kolbeinn Fannar Gíslason, sem verið hefur fyrirliði Þórsliðsins undanfarin ár, og Stefán Þór Pétursson, formaður körfuknattleiksdeildar. Mynd af heimasíðu Þórs.
Körfuknattleiksdeild Þórs hefur samið við sjö leikmenn sem spila munu með Þór í 1. deild karla á komandi tímabili. Hér er bæði um endurnýjun samninga og nýja samninga að ræða. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.
„Annars vegar hafa verið endurnýjaðir samningar við þrjá eldri leikmenn í hópnum, sem þó eru allir fæddir 2001 og 2002, en hins vegar hefur einnig verið samið við unga og bráðefnilega leikmenn sem hafa nýverið eða eru um það bil að stíga sín fyrstu skref með meistaraflokki eftir að hafa spilað með yngri flokkum félagsins,“ segir á Þórsvefnum.
Þar segir ennfremur, um leikmennina:
- Kolbeinn Fannar Gíslason (2001) hefur verið fyrirliði Þórsliðsins undanfarin ár, en þátttaka hans með liðinu á síðastliðnu tímabili takmarkaðist nokkuð vegna vinnu og náms. Kolbenn Fannar er framherji, 192 sm að hæð. Hann kom við sögu í 11 leikjum liðsins í vetur, skoraði rúm sjö stig að meðaltali og tók rúm þrjú fráköst.
- Smári Jónsson (2001) er bakvörður og leikstjórnandi, 179 sm að hæð. Hann spilaði að meðaltali rúmar 33 mínútur í leik með Þórsliðinu síðastliðinn vetur, skoraði rúm 15 stig að meðaltali, tók rúm þrjú fráköst og gaf 4,4 stoðsendingar, með tíu framlagspunkta að meðaltali í leik.
- Andri Már Jóhannesson (2002) spilaði 18 leiki með Þórsliðinu í vetur, að meðaltali rúmar 13 mínútur í leik. Hann skoraði 4,2 stig að meðaltali og tók 2,3 fráköst. Andri Már er framherji, 199 sm að hæð.
- Arngrímur Friðrik Alfreðsson (2005) kom við sögu í 20 leikjum Þórsliðsins á síðastliðnu tímabili, en spilaði þó aðallega með ungmennaflokki félagsins. Arngrímur er framherji, 190 sm að hæð.
- Fannar Ingi Kristínarson (2006) er bakvörður, 188 sm að hæð og er þetta hans fyrsti samningur hjá félaginu. Fannar Ingi kom við sögu í 12 leikjum liðsins í vetur, en spilað aðallega með 11. flokki félagsins.
- Hákon Hilmir Arnarsson (2006) kom við sögu í níu leikjum Þórsliðsins síðastliðinn vetur og spilaði að meðaltali tæpar 11 mínútur í leik. Hann var þó aðallega leikmaður 11. flokks þar sem hann spilaði rúmar 30 mínútur í leik. Hákon hefur reglulega verið valinn til æfinga með öllum yngri landsliðum sem hann hefur verið gjaldgengur í, U15, U16 og síðast U18 um síðustu jól.
- Viktor Smári Inguson (2006) kom ekki við sögu í meistaraflokki í fyrra en hefur þó verið lykilleikmaður 2006 liðsins undanfarin ár. Hann spilaði megnið af sínum mínutum með 11. flokki en spilaði þó einhverjar mínútur með ungmennaflokki sömuleiðis.