Fara í efni
Þór

Keppti níu ára á EM 18 ára og yngri

Axel James Wright á æfingu á dögunum í sal píludeildar Þórs í gamla íþróttahúsinu við Laugargötu. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Axel James Wright, 10 ára Akureyringur, varð Íslandsmeistari 13 ára og yngri í 501 í pílukasti í vor. Í sumar var hann valinn í U18 landsliðið og fór þá aðeins níu ára gamall til Ungverjalands að keppa á Evrópumóti unglinga. Ótrúlegt, en satt! Nýlega varð hann stigameistari 12 ára og yngri; vann fjögurra móta röð þrátt fyrir að hafa ekki mætt á fyrsta mótið.

„Það var stressandi en samt mjög gaman,“ segir Axel James spurður hvernig hafi verið að keppa á móti sér mun eldri mönnum á EM. „Ég vann einn leik, gegn Finnum í tvímenningi. Þeir voru ekki erfiðir,“ bætir hann við.

„Það var gríðarlega flottur skóli að fara á EM,“ segir Brynja Herborg, móðir hans. Hún er líka á fullu í pílukasti og varð Íslandsmeistari í 301 á dögunum. Er búsett á Akureyri en keppir fyrir Pílukastfélag Hafnarfjarðar. 

„Við lærðum mikið á því að fara á EM, ég er búin að fara á nokkur pílumót og þetta var það besta; mjög vel var staðið að öllu og svo var líka áberandi hve allir voru góðir vinir.“

Til gamans má geta þess að Axel James varð Akureyrarmeistari í golfi í sumar, í flokki 12 ára, og komst einmitt í fréttir þegar hann varð yngstur Íslendinga til þess að fara holu í höggi, átta ára að aldri á Dalvíkurvelli. Þá æfir hann einnig handbolta með KA.

Nóg að gera hjá stráknum. En hvaða grein skyldi honum þykja skemmtilegust? Axel James hugsar sig um: „Það er skemmtilegast í handbolta, pílu og golfi ...“

Það var svolítið eftir því hvaða dagur er! segir móðir hans og hlær.

Átta ára fór holu í höggi

Axel James og Brynja Herborg, móðir hans, sem einnig hefur orðið Íslandsmeistari í pílukasti.