Fara í efni
Þór

KA/Þór þriðja besta liðið – Rut í 9. sæti

Íslands- deildar- og bikarmeistarar KA/Þórs í handbolta. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Íslands-, deildar- og bikarmeistarar KA/Þórs í handbolta kvenna urðu í þriðja sæti í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á liði ársins og Rut Arnfjörð Jónsdóttir, leikmaður liðsins, varð níunda í kjöri Íþróttamanns ársins. Ómar Ingi Magnússon, handboltamaður í Magdeburg, er Íþróttamaður ársins 2021 og þjálfari ársins er Þórir Hergeirsson, þjálfari heimsmeistara Noregs í handbolta kvenna.

Kjöri íþróttamanns ársins, liðs og þjálfara ársins var lýst í beinni útsendingu RÚV í kvöld.

  • Tveir akureyrskir íþróttamenn hlutu atkvæði í kjöri Íþróttamanns ársins auk Rutar; listhlauparinn Aldís Kara Bergsdóttir úr Skautafélagi Akureyrar varð í 12. sæti kjörinu og Baldvin Þór Magnússon hlaupari úr Ungmennafélagi Akureyrar varð í 22. til 23. sæti.
  • Þórir varð langefstur í kjöri þjálfara ársins, Vésteinn Hafsteinsson frjálsíþróttaþjálfari varð annar og Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings í knattspyrnu þriðji. Í fjórða sæti varð svo Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs í handbolta.
  • Kvennalandslið Íslands í hópfimleikum sigraði með yfirburðum í kjöri á liði ársins, karlalið Víkings í knattspyrnu varð í öðru sæti og KA/Þór í því þriðja, sem fyrr segir. Litlu munaði á Víkingi og KA/Þór en þessi þrjú lið skáru sig mjög úr í kosningunni.
  • Þess má geta að Einar Vilhjálmsson, spjótkastari, var í kvöld tekinn inn í Heiðurshöll Íþrótta- og ólympíusambandsins. Hann er sá 23. sem hlotnast sá heiður. Í þeim hópi er inn Akureyringur; Alfreð Gíslason, landsliðsmaður í handknattleik og þjálfari til margra ára.

Nánar hér á heimasíðu Samtaka íþróttafréttamanna.