Fara í efni
Þór

KA/Þór getur náð öðru sæti í deildinni

Aldís Ásta Heimisdóttir gerði 10 mörk gegn Aftureldingu í dag. Hér er eitt þeirra í fæðingu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA/Þór burstaði Aftureldingu í dag, 36:21, í síðasta heimaleik Stelpnanna okkar í deildarkeppni Íslandsmótsins í handbolta, Olís deildarinnar. Fram burstaði Val á sama tíma og tryggði sér deildarmeistaratitilinn en í síðustu umferðinni taka Valsarar á móti liði KA/Þórs þar sem ræðst hvort liðið verður í öðru sæti.

Staðan efstu liða er þessi fyrir síðustu umferðina:

  • Fram 19 leikir – 31 stig
  • KA/Þór 19 leikir – 29 stig
  • Valur 19 leikir – 28 stig

Fram hefur betur í innbyrðis viðureignum við KA/Þór þannig að þótt liðin verði jöfn að stigum dugar það Stelpunum okkar ekki til að verja deildarmeistaratitilinn.

Með sigri eða jafntefli gegn Val í Reykjavík á fimmtudaginn, skírdag, verður KA/Þór í 2. sæti í deildinni. Tvö efstu liðin komast beint í undanúrslit Íslandsmótsins en næstu fjögur lið fara í umspil um hin tvö sætin.

Ekki þurfti glúrinn spámann til að segja til um að KA/Þór færi með sigur af hólmi í dag því Afturelding er neðst í deildinni án stiga.

Aðallið KA/Þórs spilaði fyrri hálfleikinn og að honum loknum var staðan 24:7. Flestar þær leikreyndustu sátu á bekknum allan seinni hálfleikinn en Rakel Sara Elvarsdóttir, Aldís Ásta Heimisdóttir og Hulda Bryndís Tryggvadótti skiptust á um að spila. Þær ungu og efnilegu  voru því í aðalhlutverkum, sem er dýrmætt. Þegar langt var liðið á leikinn var jafnt á með liðunum í seinni hálfleik, 12:12, en gestirnir höfðu betur á lokamínútunum og unnu seinni hálfleikinn 14:12, sem skiptir þó vitaskuld engu máli.

Mörk KA/Þórs: Aldís Ásta Heimisdóttir 10, Rut Jónsdóttir 7, Unnur Ómarsdóttir 6, Rakel Sara Elvarsdóttir 5, Anna Mary Jónsdóttir 3, Ásdís Guðmundsdóttir 2, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 1, Hildur Lilja Jónsdóttir 1, Júlía Sóley Björnsdóttir 1.

Sunna Guðrún Pétursdóttir varði 15 skot (41,7%)

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina úr leiknum.

Anna Mary Jónsdóttir í dauðafæri. Hún gerði þrjú mörk í leiknum.  Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Flestir lykilmenn KA/Þórs voru í hlutverki áhorfenda í seinni hálfleik. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson