Fara í efni
Þór

Karen María skoraði, Ísland vann

Núverandi og fyrrverandi leikmenn Þórs/KA sem spiluðu með U23 landsliði Íslands í sigrinum á Marokkó í dag. Hulda Björg Hannesdóttir, Karen María Sigurgeirsdóttir, Jakobína Hjörvarsdóttir og María Catharina Ólafsdóttir Gros.

Fulltrúar Þórs/KA í U23 landsliðinu létu til sín taka þegar liðið vann 3-2 sigur á Marokkó í æfingaleik sem fram fór í Rabat í Marokkó. Karen María Sigurgeirsdóttir skoraði annað mark Íslands og Jakobína Hjörvarsdóttir átti lykilsendingu í því fyrsta.

Jakobína var sú eina af leikmönnum Þórs/KA sem hóf leikinn, en auk hennar var María Catharina Ólafsdóttir Gros, fyrrum leikmaður Þórs/KA og nú leikmaður Fortuna Sittard í Hollandi, í byrjunarliðinu.

Marokkó náði forystunni í fyrri hálfleik og hélt henni þar til um 25 mínútur voru eftir af leiknum. Hulda Björg Hannesdóttir og Karen María Sigurgeirsdóttir komu inn sem varamenn þegar 62 mínútur voru liðnar af leiknum. Nokkrum mínútum síðar jafnaði íslenska liðið leikinn eftir góða fyrirgjöf frá Jakobínu. Karen María náði svo forystunni fyrir Ísland á 76. mínútu þegar hún fékk sendingu inn fyrir vörnina og kláraði af öryggi.

Marokkó náði að jafna leikinn á 81. mínútu eftir vítaspyrnu, en íslenska liðið svaraði aftur með marki á 87. mínútu og lauk leiknum með 3-2 sigri Íslands.

Liðin mætast aftur í æfingaleik á sama stað á mánudag.

Leiknum var streymt á YouTube-rás KSÍ og þar er hægt að horfa á upptöku frá leiknum. Leikskýrsluna má sjá hér

Sandra María mætt í byrjunarliðið

Núna kl. 18 hefst á Laugardalsvelli fyrsti leikur Íslands í nýrri Þjóðadeild UEFA þegar liðið mætir Wales. Sandra María Jessen, leikmaður Þórs/KA, er í byrjunarliðinu. Leikurinn verður sýndur á Rúv.