Fara í efni
Þór

Karen María frá Þór/KA til Breiðabliks

Sigurmarki Karenar Maríu gegn Tindastóli síðsumars fagnað. Frá vinstri: Colleen Kennedy, Karen María, Margrét Árnadótitr og Hulda Karen Ingvarsdóttir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Knattspyrnukonan Karen María Sigurgeirsdóttir, sem varð tvítug í sumar, hefur ákveðið að söðla um og gengur í dag til liðs við Breiðablik í Kópavogi. Samningur hennar við Þór/KA var til áramóta, en samkomulag náðist á milli félaganna um að ganga strax frá félagaskiptunum. Þetta kemur fram á vef Þórs/KA í dag.

Eftir því sem Akureyri.net kemst næst verður Karen María í leikmannahópnum þegar Breiðablik tekur á móti frönsku meisturunum í Paris Saint-Germain í Meistaradeild Evrópu í næstu viku. Breiðablik mun hafa fengið undanþágu til að hún geti verið til taks strax.

„Karen María skrifaði undir sinn fyrsta samning við Þór/KA í mars 2018, en hafði þá þegar verið í leikmannahópnum og komið við sögu í sex leikjum árið áður, þegar liðið vann Íslandsmeistaratitilinn. Hún er því að ljúka sínu fimmta tímabili með meistaraflokki Þórs/KA, en hluta tímabils 2018 var hún lánuð til Hamranna sem þá spiluðu í næstefstu deild,“ segir á vef Þórs/KA.

„Karen María á að baki 71 leik með Þór/KA í deild, bikar, meistarakeppni og Meistaradeild Evrópu og 11 leiki með Hömrunum í næstefstu deild, eða samtals 82 leiki þar sem hún hefur skorað 15 mörk. Auk þess 29 leiki (17 mörk) í vetrarmótum (Lengjubikar og Kjarnafæðismótinu). Þá á hún að baki 13 landsleiki með U19 og U17.

Karen María varð markahæst í liði okkar í sumar, en hún skoraði fimm mörk. Hún spilaði alla leiki liðsins í deild og bikar í sumar.

Stjórn Þórs/KA þakkar Karen Maríu fyrir framlag hennar til liðsins og óskar henni góðs gengis á nýjum vettvangi.“