Fara í efni
Þór

Kæru Fjölnis vísað frá – SA og SR mætast

Skautafélag Reykjavíkur hefur verið handhafi Íslandsbikarsins í tvö ár. Hér fagna SR-ingar eftir sigur á SA í oddaleik í fyrra. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Úrslitakeppnin Íslandsmóts karla í íshokkí mun hefjast laugardaginn 5. apríl, eins og vonast hafði verið til eftir að fresta þurfti upphafi hennar vegna kærumáls. Niðurstaða áfrýjunardómstóls ÍSÍ liggur fyrir og var kæru Fjölnis vísað frá dómi. Úrslitin í hinum kærða leik milli SA og SR þann 22. febrúar standa. Það þýðir að SR endar í 2. sæti Toppdeildarinnar og verður andstæðingur Skautafélags Akureyrar í úrslitaeinvíginu.

Dómurinn hefur ekki verið birtur á vef ÍSÍ, en í frétt mbl.is um málið kemur fram að niðurstaða áfrýjunardómstóls ÍSÍ byggir í stuttu máli á því að Fjölnir hafi ekki haft kærurétt í málinu því bæði skilyrði sem uppfylla þurfi til að öðlast kærurétt hafi ekki verið uppfyllt. Jafnvel þótt Fjölnir hefði kærurétt þar sem niðurstaða dómsins gæti haft áhrif á stöðu liðsins í deildinni og þar með þátttöku í úrslitakeppninni þá er einnig vísað til þess að til að öðlast kærurétt þurfi einnig að hafa verið misgert við viðkomandi og það skilyrði teljist ekki uppfyllt, sbr. grein 31.1 í lögum ÍSÍ, (sjá skjáskot úr lögunum hér að neðan).


Akureyringar fjölmenna ávallt í Skautahöllina þegar kemur að úrslitakeppninni í íshokkí og verður líklega engin undantekning á því að þessu sinni þó biðin hafi verið óþarflega löng. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Stjórn Íshokkísambands Íslands kom saman í dag og ákvað leikdaga í einvíginu. Ljóst er að Íslandsmeistari verður krýndur fyrir páska því ef til þess kemur að einvígið fari í oddaleik verður hann í Skautahöllinni á Akureyri þriðjudaginn 15. apríl. Vinna þarf þrjá leiki til að vinna einvígið.

  • Laugardagur 5. apríl á Akureyri kl. 16:45
  • Þriðjudagur 8. apríl kl. 19 í Reykjavík
  • Fimmtudagur 10. apríl kl. 19:30 á Akureyri
  • Laugardagur 12. apríl kl. 17:45 í Reykjavík (ef þarf)
  • Þriðjudagur 15. apríl kl. 19:30 á Akureyri ef þarf)